Viðreisn krefst aðildarviðræðna við ESB

Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.
Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi. mbl.is/Hari

Evrópusambandsaðild kann óvænt að komast á dagskrá á komandi kjörtímabili, en oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi segir áframhald aðildarviðræðna ófrávíkjanlegt skilyrði ríkisstjórnarsamstarfs flokks síns.

Miðað við nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir mbl.is hafa Samfylkingin og Viðreisn samanlagt um 44% fylgi og fengju 31 þingmann.

Báðir eru flokkarnir hlynntir aðild að Evrópusambandinu (ESB), þó hvorugur hafi sett það á oddinn að undanförnu.

Á borgarafundi í Vestmannaeyjum á miðvikudag, þar sem oddvitar allra framboða í Suðurkjördæmi sátu fyrir svörum, kom það hins vegar fram hjá Guðbrandi Einarssyni, alþingismanni Viðreisnar, að áframhald aðildarviðræðna við ESB, sem vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hóf 2010 en koðnuðu niður undir lok árs 2012, væri ófrávíkjanlegt skilyrði Viðreisnar fyrir ríkisstjórnasamstarfi.

Horfa má á borgarafundinn að ofan, en svar Guðbrands um ófrávíkjanleg skilyrði í ríkisstjórnarsamstarfi gefur að líta stuttu eftir eina stund og 25 mínútur (1:25:17).

Mætti semja um þjóðaratkvæði

Miðað við fylgið nú þurfa Evrópu­flokkarnir þriðja flokkinn til samstarfs, en aðrir flokkar en Píratar, sem eru í fallhættu, telja hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB.

Í þröngri stöðu, með lægsta sögulega fylgi og hugsanlega aðeins þrjá þingmenn, kynni Framsókn þó að vilja kaupa ráðherrastól því verði, að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.

Bæði Samfylking og Viðreisn hafa að stefnu að framhald aðildarviðræðna sé háð skýru umboði þjóðarinnar úr slíkri atkvæðagreiðslu.

Þar kann því að vera samningsgrundvöllur fyrir flokk, sem ekki er hlynntur aðild; að þjóðinni sé eftirlátið að taka ákvörðunina um viðræður án þess að flokkurinn lýsi sig beinlínis hlynntan aðild.

Það kann þó að reynast erfitt í baklandinu, enda fela aðildarviðræður við ESB ekki aðeins í sér viðræður, heldur samhliða aðlögun að regluverki og stjórnkerfi ESB með það fyrir augum að aðild að loknum viðræðum verði fyrirstöðulaus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert