Oddvitar Samfylkingarinnar segjast vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni þar til trúverðugur valkostur finnist. Hann sé ekki í sjónmáli því völlurinn sé ekki að fara neitt á næstu árum.
Logi Einarsson, oddviti í Norðvesturkjördæmi, og Víðir Reynisson, oddviti í Suðurkjördæmi, hafa báðir komið því afdráttarlaust á framfæri að undanförnu að þeir telji að flugvöllur eigi að vera áfram á þeim stað sem hann er nú. Í það minnsta þar til annar valkostur finnst.
Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar hefur um árabil lagt þunga áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni víki fyrir íbúabyggð en svo virðist sem tónn Samfylkingarinnar í sambandi við flutning flugvallarins sé að mýkjast í málinu.
Best metni kosturinn í stöðunni til þessa hefur verið nýr flugvöllur í Hvassahrauni, en frá því að eldsumbrot hófust aftur á Reykjanesskaga hafa sprottið upp efasemdarraddir um ágæti flugvallarstæðis þar.
„Við erum búin að vera að skoða þetta með áætlunarflugið, að búa til meiri sveigjanleika fyrir það, lengja tímann sem það kæmi til greina,“ sagði Víðir Reynisson á oddvitafundi í Vestmannaeyjum í síðustu viku, þegar oddvitar Suðurkjördæmis voru spurðir hvernig þeir sæju fyrir sér að tryggja góðar flugsamgöngur meðal annars til Vestmannaeyja. Hann hélt áfram:
„Fyrir okkur er ein af grunnforsendum fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Og það er mjög skýrt hjá okkur: þar verður hann og þar á hann að vera,“ bætti Víðir við.
„Það er náttúrulega stefna Samfylkingarinnar að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni þar til annar kostur verður fundinn,“ útskýrir Víðir í samtali við mbl.is, spurður um þessi ummæli.
„Hann er nú ekki í sjónmáli. Þannig að það er ekkert að fara að gerast á næstu árum að þessi flugvöllur fari eitthvað.“
Logi Einarsson, oddviti í Norðausturkjördæmi, hefur einnig tekið í svipaðan streng í kosningabaráttunni.
„Flokkurinn í borginni hefur alltaf skilið það – og hluti af samkomulaginu við innviðaráðherra er það – að flugvöllurinn verði þar sem hann er þar til að jafn góður eða betri kostur er tilbúinn,“ segir Logi í samtali við mbl.is en hann var formaður flokksins á árunum 2016 til 2022.
„Ég hef ekki talað neitt öðruvísi síðan ég byrjaði sem formaður,“ segir Logi.
Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra, sem skipar annað sæti á lista flokksins í Reykjavík Norður fyrir alþingiskosningar, við vinnslu fréttarinnar.