Andlát: Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson fasteignasali er látinn.
Jón Guðmundsson fasteignasali er látinn. Ljósmynd/Aðsend

Jón Guðmundsson löggiltur fasteignasali lést 17. nóvember á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 82 ára að aldri.

Jón fæddist í Neskaupstað 20. apríl 1942 og ólst þar upp á athafnaheimili. Foreldrar hans voru Guðmundur Sigfússon, kaupmaður og útgerðarmaður í Neskaupstað, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir.

Jón lauk stúdentsprófi frá MA 1963, hóf nám í lögfræði sama ár og lauk forprófum. Hann lauk prófi til löggildingar í fasteigna- og skipasölu árið 1989 en á námsárum sínum stundaði hann almenna vinnu og var m.a. verkstjóri hjá Síldarvinnslunni í heimabyggð sinni og framkvæmdastjóri við byggingu nýrrar síldarbræðslu í Neskaupstað 1965-67.

Jón starfaði við fasteignasölu og eignaumsýslu frá árinu 1972, stofnaði og rak eigið fyrirtæki, Fasteignamarkaðinn ehf., frá árinu 1982, fyrst með fyrri eiginkonu sinni, Ásdísi Þórðardóttur, en síðan með syni sínum Guðmundi Th., sem tekið hefur við rekstri þess. Jón var formaður Félags fasteignasala um sex ára skeið og naut virðingar og trausts allan sinn starfsferil.

Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áratugi, var fyrsti varabæjarfulltrúi fyrir flokkinn í Neskaupstað 1970-74 og í þriðja sæti á framboðslista hans í Austurlandskjördæmi í tvennum alþingiskosningum, 1971 og 1974. Hann var í stjórn SUS 1971-73 og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í áratugi, m.a. sem ritstjóri bæjar- og kjördæmisblaðsins Þórs.

Hann var formaður húsnæðisnefndar Garðabæjar um tíma og sat í ýmsum nefndum á vegum bæjarins meðan hann gegndi formennsku í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ. Hann gekk í Rótarýklúbbinn Görðum 1983, var virkur félagi í hreyfingunni og mikill Rótarýmaður. Jón sat í stjórn Viðlagasjóðs 1973-76, í stjórn Íþrótta- og ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ 1984-1990, var formaður byggingarnefndar félagsheimilis Stjörnunnar frá 1989 og var sæmdur lárviðarsveig félagsins.

Fyrri eiginkona Jóns var Ásdís Þórðardóttir f. 1948, d. 1991. Börn Jóns og Ásdísar eru Arnar Þór, Guðmundur Theodór og Sigríður Ásdís. Dóttir Jóns er Thelma Sif. Eftirlifandi eiginkona hans er Jóhanna Hreinsdóttir myndlistarmaður, f. 1958. Börn Jóhönnu eru Gyða Bergs, Steinunn Bergs og Hreinn Bergs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert