Brynjar fær ekki stjórnarsæti: Sigurður Kári inn

Brynjar Níelsson mun ekki taka sæti í stjórn Mannréttindastofnunar líkt og útlit var fyrir. Þess í stað mun Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, taka sæti í stjórn hinnar nýju stofnunar og verður formaður hennar.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Segir hún ástæðuna vera þá að Brynjar sækist eftir þingsæti fyrir flokkinn í komandi alþingiskosningum en Brynjar býður sig fram í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki lengur kjörgengur 

„Við höfðum lagt upp með að Brynjar Níelsson myndi taka sæti í stjórninni sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins en það getur ekki gengið eftir sökum þess að hann fór í framboð. Hann er því ekki lengur kjörgengur til að sitja í stjórninni því þingmenn mega ekki sitja í þessari stjórn. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur samþykkt, að taka að sér að sitja í stjórninni og verður þar formaður. Hann mun því fylgja Mannréttindastofnun úr hlaði fyrstu misserin. Sigurður Kári verður án efa öflugur í þessu hlutverki, þó að það hefði auðvitað verið gaman að hafa Brynjar þarna, en það verður bara enn meira gaman að fá hann inn á þing,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert