Stefán Már Símonarson framkvæmdastjóri Nesbús, þar sem sex þúsund hænsnfuglar drápust í eldsvoða í nótt, segir að betur hafi farið en leit út fyrir í fyrstu.
„Fyrstu fréttir voru skuggalegar,“ segir Stefán en eldur var mest bundinn við þak eins hússins sem hýsir starfsemina við Voga á Vatnsleysuströnd.
Að sögn hans hélt brunahólfið á húsinu þannig að tjónið varð ekki meira en raun bar vitni. „En nóg var það samt,“ segir Stefán.
„Það fór vel því veðurfarslegar aðstæður voru þannig að reykurinn fór ekki yfir önnur hús heldur beint á haf út,“ segir Stefán.
Að sögn hans drápust öll hænsnin í þessu tiltekna rými. Hann segir að sambærilegt hús kosti um 150 milljónir króna með búnaði.
Að sögn hans er besta mögulega útkoman sú að einungis þakið hafi skemmst og að nóg verði að skipta um það. Það komi þó betur í ljós þegar lögregla hefur rannsakað vettvang.
„Það Þarf að meta það hvort húsið sé ónýtt eða hvort þurfi að byggja annað. Það verður að koma í ljós þegar við fáum að skoða vettvanginn betur,“ segir Stefán.
Að sögn hans var engin manneskja í hættu en vaktmenn fyrirtækisins voru meðal þeirra fyrstu sem komu að.
„Við fáum ekkert að skoða þetta fyrr en lögregla hefur skoðað vettvang,“ segir Stefán.