„Þetta á aðallega að vera skemmtilegt, jafnvel fyndið, og margar sögurnar sem standa upp úr eru fallegar og góðar. Þær geta þó líka verið sorglegar og átakanlegar en samt á einhvern hátt fallegar á sama tíma. Það er von í öllum þessum sögum.“
Þetta segir Illugi Jökulsson rithöfundur sem sent hefur frá sér bókina Rétt áðan. Illugi hefur árum saman punktað hjá sér ýmislegt af því sem hann sér og heyrir, man og upplifir á ferðum sínum um lífið, samfélagið, veröldina, verslanirnar og heitu pottana, svo vitnað sé til texta á bókarkápu.
„Ég byrjaði bara á þessu fyrir sjálfan mig. Sumt af þessu hef ég birt á netinu og einhverjum fannst það eiga heima á bók, þannig að ég fór að safna þessu efni saman með útgáfu í huga. Gefa því varanlegra form enda þótt netið gleymi auðvitað engu, eins og komið er í ljós,“ segir Illugi.
„Það er gaman að geta sagt fallegar sögur; það er nefnilega ekki allt fallegt í heiminum,“ heldur hann áfram. „Hversdagslífið getur verið yndislegt – ég leyfi mér að nota það orð – og það gleður mig alltaf þegar ég sé og heyri eitthvað skemmtilegt og fallegt. Það eykur trú mína á samborgurunum.“
– Og jafnvel mannkyninu í heild?
„Já, það má alveg segja það.“
Oftar en ekki er fólk bara að spjalla um daginn og veginn, þegar Illugi leggur við hlustir eða virðir viðkomandi fyrir sér. „Nokkuð sem við upplifum öll, alla daga. Þetta er sjaldnast merkilegra en það. En þegar maður leggur sig eftir því að hlusta og leggur samtalið á minnið sér maður hvað fólk er gáfað, fallegt og stundum dálítið skrýtið.“
– Og það skrýtna gefur lífinu lit.
„Já, maður kemst illa af án þess.“
Nánar er rætt við Illuga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.