Birta Hannesdóttir
Kjaradeilu Læknafélags Íslands og ríkisins miðar vel áfram, að sögn Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara. Fundað var hjá ríkissáttasemjara alla helgina og segir Ástráður að „mikil jákvæð vinna“ sé í gangi.
Læknafélagið hefur boðað til verkfallsaðgerða eftir rúma viku eða 25. nóvember, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Þær aðgerðir munu ná til lækna sem starfa á Landspítalanum, öðrum heilbrigðisstofnunum sem og heilsugæslustöðvum, fyrir utan þær einkareknu.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknasambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að meiri hraði hafi færst í viðræðurnar eftir að boðað var til verkfallsaðgerða.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að það takist að semja áður en að fyrirhuguð verkföll hefjist segir Ástráður að hann geti ekkert fullyrt um það, en stefnt sé að því.
„Við erum á fullri ferð áfram,“ segir hann að lokum.