Kosninga- eða jólagos?

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. Samsett mynd

„Það fer kannski að styttast í að þetta nái svipuðu rúmmáli eins og fyrir síðasta gos,“ segir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is um stöðuna á kvikusöfnun undir Svartsengi. Hann bætir við að óvissan sé þó alltaf til staðar. 

Það magn sem talið er að þurfi að safnast saman fyrir næsta kvikuhlaup er talið vera að lágmarki um 23 milljónir rúmmetra.

„Ég myndi segja að á svona næstu tveimur vikum þá ættum við að ná því,“ segir Benedikt en þingkosningar eru eftir tæplega tvær vikur, laugardaginn 30. nóvember. 

Skjálftavirkni ekki vaxið að ráði

Benedikt segir að skjálftavirkni fari oft vaxandi vikum eða mánuðum fyrir gos en hún sé ekki enn farin að vaxa neitt að ráði.

„Við erum aðeins byrjuð að sjá það en það er ekki komið neitt nálægt því sem hefur verið fyrir síðustu tvö gos að minnsta kosti. Þannig að við eigum frekar von á því að það verði eitthvað lengra í þetta heldur en bara þessar tvær vikur,“ segir hann og bætir við að ekki sé hægt að fullyrða neitt. 

Benedikt segir að ólíklegt sé að neitt gerist fyrr en skjálftavirknin vaxi.

„Það er merki um að þrýstingur sé að aukast þegar hún vex.“

Síðasta eldgos hófst 22. ágúst.
Síðasta eldgos hófst 22. ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lengra á milli gosa 

Spurður hvort að hægst hafi á landrisi segir Benedikt að fyrir helgi hafi landrisið verið nokkuð stöðugt.

Hann segir að það geti verið flökt á milli daga í mælingum og því verði að meta hraða landrissins yfir lengri tíma.

Bendir allt til að komandi eldgos verði eins og síðustu gos?

„Já, það eru öll merkin – skjálftar, landris og allt þetta – eru mjög svipuð. Þannig að maður býst nú frekar við að þetta hagi sér svipað með.“

Benedikt segir að þróunin sé þó þannig að lengra sé á milli gosa.

„Það þarf alltaf meira og meira. Kannski þess vegna erum við aðeins að hafa varann á með það, við þurfum kannski að bíða svolítið eftir þessu.“

Það verður kannski bara jólagos?

„Já, kannski. Við sjáum til bara. Það er allavega einn möguleiki klárlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka