Vinstri grænir vilja byggja 1500 félagslegar íbúðir, kynna leigubremsu og aukið framboð lóða í samstarfi við sveitarfélög. Þá hyggst flokkurinn berjast gegn sölu áfengis í smásölu og segist hafna einkavæðingu ÁTVR.
Þetta er meðal þess sem kom fram þegar VG kynnti áherslur sínar fyrir komandi kosningar.
Fram kom í máli Svandísar Svavarsdóttur, formanns VG að flokkurinn vilji fella niður námslán hjá læknum og heilbrigðisstarfsfólki. Með því vonast flokkurinn eftir því að fleiri úr starfsstéttunum sjái sér fært að flytja heim til Íslands.
Þá vill flokkurinn beita sér fyrir lægri vöxtum á námslánum og nýta námslánakerfið til að laða að stúdenta heim til Íslands.
Einnig vill flokkurinn banna hvalveiðar og blóðmerahald auk þess að beita sér fyrir friðun Eyjafjarðar, Öxarfjarðar og Seyðisfjarðar fyrir sjókvíaeldi. Eins að sjókvíaeldi í opnum sjókvíum verði fasað út í skrefum.
Þá vill flokkurinn stórauka fjárútlát til loftlagsaðgerða.
Einnig kom fram að VG vilji beita sér fyrir því að tekið verði vel á móti innflytjendum og sérstaklega tekið fram að „varðhaldsbúðir“ fyrir fólk á flótta séu flokknum þvert um geð.