Í dag er útlit fyrir talsverðan vind með éljum norðan- og austanlands en sunnan heiða er spáð þurru veðri og yfirleitt nokkuð björtu. Svipuðu veðri er spáð á morgun og raunar næstu fjóra daga að því er fram kemur í veðurspá Veðurstofunnar.
„Það er víðáttumikil og djúp lægð yfir Skandinavíu ásamt hæð yfir Grænlandi sem beinir til okkar norðanáttinni og köldu lofti, frost verður yfirleitt á bilinu 2 til 8 stig á landinu. Þessi staða veðrakerfanna virðist eiga að haldast út miðvikudag og því horfum við fram á fjóra daga af tilbreytingarlitlu veðri.“