„Mér finnst þetta auðvitað ömurleg staða“

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta auðvitað ömurleg staða,“ segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um niðurstöður skoðanakannana í aðdraganda alþingiskosninga sem mæla hans gamla flokk ítrekað undir 20 og jafnvel 15% fylgi. 

Geir segir stöðuna ekki síst ömurlega í ljósi þess að honum finnst Bjarni Benediktsson formaður flokksins bera höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn sem núna eru á vettvangi og ómaklegt og óréttmætt hvernig um hann sé talað.

„Það breytir ekki stöðunni og líta má á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi klofnað í tvær áttir. Mögulega auðveldar það samstarf eftir kosningar, ég veit ekkert um það. Ég hef engin bjargráð en treysti hins vegar Bjarna og hans fólki til að vinna úr þessu eins vel og hægt er. Það er mikil nauðsyn að flokkurinn rétti úr kútnum.“

Ennþá ungur maður

– Sérðu Bjarna halda áfram sem formann eftir kosningar?

„Það verður hann sjálfur að meta að loknum kosningum. Auðvitað hætta allir einhvern tíma og Bjarni er búinn að vera formaður lengi. En hann er ennþá ungur maður, aðeins rúmlega fimmtugur. Ég treysti Bjarna vel til að meta hvað sé flokknum fyrir bestu í því efni. Það eru alltaf einhverjir til að taka við.“

– Kanntu einhverja skýringu á þessu fylgistapi? Er það stjórnarsamstarfið undanfarin tvö kjörtímabil?

„Það virðist vera ein aðalskýringin, því þetta fylgistap á við um alla þessa þrjá flokka. Málamiðlanirnar sem hafa verið gerðar virðast hafa verið of dýrkeyptar fyrir þá alla. En nú erum við líka í þeirri stöðu að vera með átta og jafnvel níu flokka á þingi, í stað fjögurra eða fimm áður, sem er mjög flókið mál og óheppilegt. Þetta er nýtt landslag og ég óska mínum gömlu félögum alls hins besta.“

Ítarlega er rætt við Geir í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert