„Ekki grunaði mig þegar ég skrifaði stutta frétt í Morgunblaðið 22. nóvember 1974 um dularfullt mannshvarf í Keflavík að það væri upphafið að þekktasta sakamáli Íslandssögunnar. Þetta var eindálka frétt með fyrirsögninni „Manns saknað í Keflavík“.“
Þetta segir Sigtryggur Sigtryggsson, blaðamaður Morgunblaðsins og fulltrúi ritstjóra. Hann hóf störf á blaðinu í apríl 1974, var fréttastjóri í 35 ár, 1981-2016, en hóf þá að skrifa fréttir á ný og er enn að störfum.
„Ég hafði aðeins verið lögreglufréttaritari í nokkrar vikur þegar lögreglan í Keflavík hringdi fimmtudaginn 21. nóvember 1974 og bað um að auglýst yrði eftir vitnum að ferðum Geirfinns. Hvarf hans þótti afar dularfullt og þegar á leið var fjallað um þetta mál daglega í öllum blöðum, sjónvarpi og útvarpi. Reyndar má segja að Geirfinnsmálið hafi verið fréttaefni allar götur síðan, eða í hálfa öld,“ segir Sigtryggur en fréttina má sjá hér til hliðar.
„Við sem vorum starfandi á ritstjórn Morgunblaðsins á þessum tíma skynjuðum strax að hér var á ferðinni afar óvenjulegt mál. Mánudaginn 25. nóvember ákvað Björn Jóhannsson fréttastjóri að senda þá Ingva Hrafn Jónsson blaðamann og Friðþjóf Helgason ljósmyndara til Keflavíkur. Fyrirsögn greinar Ingva var „Við finnum manninn sem hringdi“ og var þar vísað til manns sem á að hafa hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðinni í Keflavík kvöldið sem hann hvarf. Lögreglan í Keflavík lagði allt kapp á að finna þennan mann og leitaði hún sérfræðiaðstoðar hjá Sakadómi Reykjavíkur. Sakadómur, sem var rannsóknarlögregla þessa tíma, tók síðar alfarið við rannsókn málsins af Keflvíkingunum.“
Sigtryggur fjallaði um Geirfinnsmálið nánast frá a til ö og var á frægum blaðamannafundi þegar leirstyttan fræga var kynnt.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.