1.500 milljónir í þjóðarleikvanga á næsta ári

Laugardalsvöllur í nóvember á síðasta ári.
Laugardalsvöllur í nóvember á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn og hálfur milljarður króna verður settur í þjóðarleikvanga á næsta ári. 

Þetta var staðfest með afgreiðslu fjárlaga í dag.

Mun stærsti hluturinn renna til uppbyggingar nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir sem er komin á hönnunar- og framkvæmdastig. Þá aukast fjárframlög til eflingar afreksíþróttastarfs einnig en 637 milljónum verður veitt í þann málaflokk til viðbótar.

Í tilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins segir að markmið þessara aðgerða sé að umbylta umgjörð íþróttastarfs á Íslandi og tryggja afreksíþróttafólki stuðning sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Fjöldi starfshópa og ráðgjafarfyrirtækja

Eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá hefur fjöldi starfshópa verið skipaður um nýja þjóðarleikvanga og þjóðarhöll í Laugardal. Svipaður fjöldi ráðgjafarfyrirtækja hefur komið að ferlinu, tvö undirbúningsfélög verið stofnuð og tvær viljayfirlýsingar undirritaðar.

Samkvæmt skýrslu starfshóps sem skipaður var 2018 átti að vígja nýjan þjóðarleikvang vorið 2021. Samkvæmt viljayfirlýsingu sem var undirrituð í maí 2022 var stefnan sett á að ljúka framkvæmdum við þjóðarhöll árið 2025. Áætluð verklok hallarinnar nú eru 2027/2028.

Fjallað var ítarlega á mbl.is í september um fyrirætlanir stjórnvalda síðustu ár, sem ekki hafa gengið eftir:

Fyrstu skóflustungurnar

Í byrjun síðasta árs setti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, af stað vinnu undir forystu Vésteins Hafsteinssonar til að bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Vésteinn var samhliða ráðinn sem afreksstjóri ÍSÍ.

Í síðasta mánuði var skóflum svo loks stungið í jörðu í Laugardal, nánar til tekið Laugardalsvelli, eftir margra ára bið.

Til stend­ur að setja hit­un­ar­kerfi und­ir völl­inn og vera með blöndu af nátt­úru­legu grasi og gervi­grasi.

Hrinda aðgerðum í framkvæmd

„Ég hef lagt ríka áherslu á stóreflingu íþróttastarfs og þessi fjárlög marka algjör tímamót. Bæði með stórauknu framlagi til reksturs afreksíþróttastarfs en líka með því að ríkisvaldið hefur aldrei stigið af jafnmiklum krafti inn í mannvirkjagerð ætlaða landsliðunum okkar,“ er haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningunni.

Nú hefst vinna við að hrinda aðgerðum til eflingar afreksíþróttastarfs í framkvæmd. Ætlunin er að búa þannig um afreksíþróttafólk og -starf hérlendis að stuðningur og aðstaða verði til fyrirmyndar og ekki síðri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Beinn fjárstuðningur til sérsambanda og afrekssjóðs verður aukinn samhliða stórauknum stuðningi við yngri landslið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun gegna lykilhlutverki í tillögunum þar sem fagteymi sérfræðinga kemur saman á einum stað og hlúir að öllum undirstöðuþáttum fyrir framúrskarandi árangur í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands,“ segir í tilkynningunni.

„Þar er horft til fleira þátta en eingöngu líkamlegrar þjálfunar. Taka þarf mið af nýjustu rannsóknum, huga vel að andlegum þáttum hjá afreksíþróttafólki og tryggja að það fái þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta helgað sig íþrótt sinni og öðlast sömu réttindi og aðrir á vinnumarkaði. Einnig verður unnið að eflingu umgjarðar og hæfileikamótunar ungs íþróttafólks með aukinni samvinnu mismunandi skólastiga, íþróttafélaga og sérsambanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka