Lagasetning Alþingis þegar ný búvörulög voru samþykkti í mars á þessu ári, þar sem kjötafurðastöðvum var meðal annars veitt undanþága frá samkeppnislögum, var í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.
Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem hefur fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem eftirlitið synjaði kröfu innflutningsfyrirtækisins Innnes um íhlutun vegna breytinganna.
Eftir að matvælaráðherra hafði lagt fram frumvarp um breytingar á búvörulögum gerði atvinnuveganefnd umtalsverðar breytingar á frumvarpinu sem vörðuðu meðal annars umrædda undanþágu frá samkeppnislögum.
Meðal þeirra sem gagnrýndu breytingu nefndarinnar á sínum tíma voru ASÍ, Neytendasamtökin, Félag atvinnurekenda og þingmenn minnihlutans.
Meirihlutinn, meðal annars Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vörðu hins vegar breytingarnar og sögðu þetta nauðsynlegt til að tryggja eðlilegar framfarir.
Í dómi héraðsdóms er meðal annars vísað til þess að málið snúist um stjórnskipulegt gildi laganna og hvort formskilyrðum 44. Greinar Stjórnarskrár lýðveldisins sé fullnægt, en hún hljómar svo: „Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.“
Kemur fram í dóminum að frumvarpi megi ekki hafa verið breytt svo mjög í meðförum Alþingis að því hafi verið gjörbreytt eða á því gerðar svo gagngerar breytingar að í raun sé um nýtt frumvarp að ræða. Hins vegar er tekið fram að ótvírætt sé að gera megi breytingar á frumvörpum eins og mýmörg dæmi séu um, ef gætt er þess að ákvæði stjórnarskrárinnar sé haft í heiðri.
Vísað er í skjal sem lagt var fram í málinu þar sem upphaflegur texti frumvarpsins er sýndur og sérstaklega sá texti sem felldur var út í meðför atvinnuveganefndar.
„Við blasir að öllum texta frumvarpsins er laut að efni upphaflega frumvarpsins var skipt út og nýr settur í hans stað annars efnis,“ segir í dóminum.
Er vísað til þess að samkvæmt upphaflega frumvarpinu hafi verið stefnt að því að breyta 5. og 6. grein búvörulaga með það í huga að efla hagsmuni bænda, en lagabreytingin eins og hún var samþykkt á Alþingi, eftir breytingarnar, sé í þágu afurðastöðva með það að markmiði að efla rekstrarskilyrði þeirra, með samstarfi, samruna og með því að reyna að nýta þann samtakamátt sem geti falist í því þegar svona fyrirtæki vinni saman, en þar er vísað í orð formanns nefndarinnar þegar hann mælti fyrir breytingartillögum nefndarinnar á Alþingi.
„Augljóst er að ólíkir aðilar njóta góðs af,“ segir í dóminum.
Er það niðurstaða dómsins að þarna hafi verið um gagngera breytinga að ræða á frumvarpi ráðherra og þar með hafi frumvarpið sem útbýtt var á Alþingi einungis fengið eina umræðu á þinginu, en annað eðlisólíkt frumvarp, í samræmi við tillögur nefndarinnar, hafi svo verið rætt við tvær umræður.
„Áskildum fjölda umræðna samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar var þannig ekki náð.“
Er það því niðurstaða dómsins að breyting búvörulaganna, eins og hún var gerð af Alþingi hafi strítt gegn 44. grein stjórnarskrárinnar og hafi af þeim sökum ekki lagagildi.
Þar af leiðandi hafi Innnes borið skarðan hlut frá borði gagnstætt samkeppnisaðilum sem hafi notið góðs af breytingunni. Er því fallist á með Innnesi að felld verði úr gildi fyrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem synjaði kröfu Innnes um íhlutun vegna breytinga á lögunum.