Alþingisgarðurinn friðlýstur

Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, …
Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, við undirritun friðlýsingarinnar í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu vegna Alþingisgarðsins við Kirkjustræti og mun friðlýsingin taka til garðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist.

Þetta segir í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Kemur þar fram að friðlýsingin hafi verið gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og sé í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar, þá nánar tiltekið 18. gr. sem fjallar um um friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.

„Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins við Kirkjustræti 14 í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna og hlaðinna veggja umhverfis garðinn. Garðurinn er 901,8 fermetrar að stærð, lengd hans er 33,1 metrar og breidd 27,2 metrar, og miðast útmörk friðlýsingarinnar við það. Vikið er frá því að hafa 100 m friðhelgunarsvæði umhverfis útmörk garðsins, sbr. 22. gr. laga um menningarminjar,“ segir í tilkynningunni.

Gildi garðsins afar mikið á landsvísu

Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að því fylgi mikil ánægja að staðfesta tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu garðsins. Garðurinn hafi markað tímamóti í íslenskri garðsögu og að upphafsmaður hans, Tryggi Gunnarsson, hafi sinnt garðinum einstaklega vel.

„Í Alþingisgarðinum fyrirfinnast enn ýmsar tegundir plantna, sumar horfnar þaðan eins og Þingvíðirinn sem nefndur er eftir garðinum, en margar þrífast þar enn enda hefur garðinum alltaf verið vel sinnt. Skipulag garðsins hefur ekki mikið breyst frá þarsíðustu öld. Í honum má líka sjá handverk í formi hleðslna og hlaðinna veggja.

Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra,“ segir ráðherrann.

Elsti almenningsgarður við opinbera byggingu

Í tilkynningunni kemur fram að Alþingisgarðurinn sé elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi.

Framkvæmdir hafi staðið yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins hafi legið fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.

„Upphafsmaður verksins var Tryggvi Gunnarsson alþingismaður, en Tryggvi var jarðsettur í garðinum að eigin ósk og er á leiði hans minnisvarði eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.“

Þá voru viðstödd friðlýsinguna, auk ráðherra, forseti Alþingis og fulltrúar Alþingis, Minjastofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka