„Ég er náttúrulega alveg ósammála“

Þórarinn segir að lögfræðingar nefndarsviðs hafi metið sem svo að …
Þórarinn segir að lögfræðingar nefndarsviðs hafi metið sem svo að breytingar væru löglegar. Samsett mynd

Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar, er ósam­mála niður­stöðu Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að af­greiðsla bú­vöru­laga á Alþingi í vor, þar sem kjötaf­urðastöðvum var meðal ann­ars veitt und­anþága frá sam­keppn­is­lög­um, hafi stang­ast á við stjórn­ar­skrá.

Eft­ir að mat­vælaráðherra hafði lagt fram frum­varp um breyt­ing­ar á bú­vöru­lög­um gerði at­vinnu­vega­nefnd um­tals­verðar breyt­ing­ar á frum­varp­inu sem vörðuðu meðal ann­ars um­rædda und­anþágu.

Í niður­stöðu héraðsdóms sagði að ekki gera mætti svo mikl­ar breyt­ing­ar frum­varpi í meðför­um þings­ins að í raun sé um nýtt frum­varp að ræða.

„Ég er í sjálfu sér ósam­mála því [niður­stöðunni]. Til­gang­ur máls­ins sem kom úr at­vinnu­vega­nefnd og til­gang­ur upp­haf­lega máls­ins frá mat­vælaráðherra er sá sami. Það er að segja að ná fram hagræðingu í afurðasölu­geir­an­um til hags­bóta fyr­ir bænd­ur og neyt­end­ur. Til­gang­ur­inn er sá sami,“ seg­ir Þór­ar­inn í sam­tali við mbl.is. 

Lög­fræðing­ar mátu sem svo að af­greiðslan væri í lagi

Hann út­skýr­ir að þegar breyt­ing­ar eru gerðar í nefnd­um þá fari lög­fræðing­ar nefnd­ar­sviðs ít­ar­lega yfir þær til þess að ganga í skugga um að þær fari ekki út fyr­ir lag­aramma. Það hafi líka gerst í þessu til­felli.

„Áður en við tók­um málið út úr nefnd­inni var farið yfir það af þess­um lög­fræðing­um, hvort að málið stæðist og það var niðurstaðan að svo væri. Þar af leiðandi hélt málið áfram,“ seg­ir Þór­ar­inn.

„Þar af leiðandi kem­ur þetta mér í sjálfu sér á óvart.“

Ósam­mála túlk­un héraðsdóms

Í niður­stöðu héraðsdóms seg­ir að sam­kvæmt upp­haf­lega frum­varp­inu hafi verið stefnt að því að breyta 5. og 6. grein bú­vöru­laga með það í huga að efla hags­muni bænda, en laga­breyt­ing­in eins og hún var samþykkt á Alþingi, eft­ir breyt­ing­arn­ar, sé í þágu afurðastöðva með það að mark­miði að efla rekstr­ar­skil­yrði þeirra, með sam­starfi, samruna og með því að reyna að nýta þann sam­taka­mátt sem geti fal­ist í því þegar svona fyr­ir­tæki vinni sam­an, en þar er vísað í orð for­manns nefnd­ar­inn­ar þegar hann mælti fyr­ir breyt­ing­ar­til­lög­um nefnd­ar­inn­ar á Alþingi.

„Aug­ljóst er að ólík­ir aðilar njóta góðs af,“ seg­ir í dóm­in­um.

Spurður hvort að þetta sé ekki of mik­il breyt­ing á frum­varp­inu, miðað við túlk­un héraðsdóms, seg­ir Þór­ar­inn:

„Ég er nátt­úru­lega al­veg ósam­mála þess­ari túlk­un og það kem­ur mjög vel fram í nefndaráliti at­vinnu­vega­nefnd­ar varðandi til­gang máls­ins og hver ávinn­ing­ur­inn á að vera fyr­ir bænd­ur og neyt­end­ur. Þannig þarna grein­ir okk­ur á og það var ein­hug­ur um þetta í meiri­hluta nefnd­ar­inn­ar hvað þetta varðar,“ seg­ir Þór­ar­inn.

Eðli­legt að Sam­keppnis­eft­ir­litið áfrýi

Hon­um finnst eðli­legt að Sam­keppnis­eft­ir­litið áfrýi niður­stöðu héraðsdóms, þó hann taki það fram að Sam­keppnis­eft­ir­litið þurfi að svara fyr­ir það.

Á grund­velli þess­ara und­anþágu­heim­ilda sem lög­in tryggðu hef­ur KS m.a. yf­ir­tekið Kjarna­fæði Norðlenska og í fjöl­miðlum hef­ur ný­lega verið greint frá mögu­leg­um kaup­um fé­lags­ins á B. Jen­sen, sem rek­ur slát­ur­hús og kjötvinnslu.

Spurður hvort að ríkið verði mögu­lega skaðabóta­skylt ef Sam­keppnis­eft­ir­litið myndi gera at­huga­semd og kaup­um KS á Norðlenska rift seg­ir Þór­ar­inn:

„Nú get ég bara ekki svarað þessu og það verða nú aðrir þar­til­bær­ir ein­stak­ling­ar að svara því. Verðum við ekki að leyfa deg­in­um að líða alla­vega og sjá hvernig málið þró­ast og hvert farið farið verður með málið,“ seg­ir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert