Fjárlög samþykkt og Alþingi frestað

Þingi er frestað.
Þingi er frestað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðasta þingfundi kjörtímabilsins er lokið, fjárlög hafa verið afgreidd og þingi formlega frestað.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra þakkaði alþingismönnum fyrir samstarfið á löggjafarþinginu.

Hann hvatti sömuleiðis landsmenn til að nýta kosningarrétt sinn í komandi þingkosningum og öll framboð til drengilegrar kosningabaráttu.

Síðasti dagurinn sem forseti Alþingis

Birgir Ármannsson stýrði sínum síðasta fundi sem forseti Alþingis í dag.

„Þingið sem nú er að ljúka, hið 155. í röð löggjafarþinga, hófst með venjulegum hætti í haust. En um miðjan október urðu þeir atburðir á vettvangi stjórnmálanna sem ég gat um í upphafi og leiddu til stjórnarslita og þingrofs. Eftir að svo var komið hefur megináherslan í þingstörfunum verið á umfjöllun um fjárlög, fjárlagatengd mál og önnur mál sem ekki var talið að gætu beðið nýs þings. Nú hafa fjárlög verið sett og gengið frá öðrum málum sem nauðsynlegt var að ljúka fyrir kosningar,“ sagði Birgir.

Hann þakkaði þingmönnum, formönnum þingflokka, varaforsetum, áheyrnarfulltrúum í forsætisnefnd og þingnefndum sem komið hafa að afgreiðslu mála.

Birgir fékk mynd eftir síðasta þingfundinn.
Birgir fékk mynd eftir síðasta þingfundinn.

Gengið á ýmsu

Birgir tók sæti á Alþingi 2003 og hefur setið á þingi síðan þá, eða í 21 ár og sjö mánuði. Hann gefur ekki kost á sér í næstu kosningum. 

„Á þessum tíma hefur gengið á ýmsu í stjórnmálalífinu og störfum þingsins. Stundum hefur gengið vel og stundum illa. Stundum hafa átök verið hörð en svo hafa komið friðsamlegir kaflar inn á milli. En hvað sem því líður þá er ég afar þakklátur fyrir tækifærið til að taka þátt í þingstörfunum allan þennan tíma. Það eru mikil forréttindi að fá umboð kjósenda til að sitja á Alþingi og vinna að hugsjónum sínum og hagsmunamálum þjóðarinnar á þessum vettvangi,“ sagði Birgir.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður flokks Fólksins, afhenti Birgi blómvönd fyrir hönd þingmanna undir lok þingfundar og þakkaði honum fyrir góð störf. 

Blómvöndurinn afhentur.
Blómvöndurinn afhentur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka