Eftir samþykkt fjárlaga er hægt að hefja framkvæmdir á Ölfusárbrú, fyrirhugað kílómetragjald er sett á ís, séreignarsparnaðarúrræðið er framlengt en ekki afnumið eins og upphaflega stóð til, kolefnisgjald er hækkað og innviðagjald er sett á skemmtiferðaskip.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjárlögum sem voru samþykkt fyrr í dag.
Njáll Trausti Friðbertsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að vinnan við fjárlagafrumvarpið hafi verið óvenjuleg þar sem enginn starfandi meirihluti er á þinginu. Samt tókst að tryggja aðhald í ríkisrekstri að hans sögn.
„Almennt er ég mjög sáttur við hvernig staðið er að málum og eins og við erum að afgreiða málið þá er enn þá mjög gott aðhald í gegnum fjárlögin varðandi ríkisfjármálin. Þannig það eru miklar væntingar um það að þetta gagnist vel inn í baráttuna við verðbólguna og að meginvextir Seðlabankans lækki á miðvikudaginn,“ segir Njáll.
Hann er ánægður með það að kílómetragjaldið bíði fram á næsta þing og að séreignarsparnaðarúrræðið hafi verið framlengt.
Upphaflega átti að taka upp kílómetragjald, hækka kolefnisgjald um sem nemur 7,6 milljarða og fella niður eldsneytisgjöld.
Þar sem það var ekki samþykkt, þar af leiðandi ekki fyrirhuguð hækkun á kolefnisgjaldi, var rúmlega sjö milljarða gat í fjárlögum á næsta ári sem þurfti að fylla.
Njáll segir að því hafi kolefnisgjald verið hækkað um fjóra milljarða, sem Njáll tekur fram að sé talsvert minna en fyrst stóð til með frumvarpinu um kílómetragjald, og þá var dregið af uppsöfnuðum og ónýttum fjárheimildum til uppbyggingar nýs Landspítala.
„Mikilvægt er að halda því til haga að staðið verður við allar skuldbindingar og allar fyrirhugaðar framkvæmdir við nýjan Landspítala á næsta ári,“ segir Njáll.
Framkvæmdir á Ölfusárbrú geta hafist eftir að Alþingi samþykkti lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun brúarinnar og vegtengingar.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar að fullu með veggjöldum og því er heimildin hugsuð sem varúðarráðstöfun.
Í nefndaráliti sínu um fjárlög 2025 segir meirihluti fjárlaganefndar Alþingis brýnt að veggjöld standi undir kostnaði að langmestu leyti og ítrekar að framkvæmdin hafi engin áhrif á útgjöld samkvæmt fjárlögum fyrr en að framkvæmdatíma loknum.
Ríkinu er heimilt að skuldbinda ríkissjóð til að standa undir kostnaði í heild eða að lágmarki 50%.
Einnig var samþykkt að leggja innviðagjald á skemmtiferðaskip í millilandasiglingum þar sem greitt verður fyrir hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins.
Innviðagjaldið verður 2.500 kr. fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring.