Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, telur líklegt að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, um að afgreiðsla búvörulaga á Alþingi í vor hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá, verði áfrýjað.
Spurður hvort að hann vonist til þess að þessu verði áfrýjað segir Sigurður:
„Mér finnst það bara líklegt. Þetta er þess eðlis mál, eins og ég skil það að þá gæti það haft umtalsverðar afleiðingar og þá er eðlilegt að það sé skoðað frá öllum hliðum,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
Eftir að matvælaráðherra hafði lagt fram frumvarp um breytingar á búvörulögum gerði atvinnuveganefnd umtalsverðar breytingar á frumvarpinu, þar sem kjötafurðastöðvum var meðal annars veitt undanþága frá samkeppnislögum. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að ekki gera mætti svo miklar breytingar frumvarpi í meðförum þingsins að í raun sé um nýtt frumvarp að ræða.
Ertu sammála þessari niðurstöðu?
„Nú er þessi dómur nýfallinn, ég þekki hann ekki. Aðalatriðið er þetta að stefnumörkunin er alveg skýr og mikill meirihluti þings studdi þessi breytingu. Að bændur á þessum hluta markaðarins séu með sambærilega stöðu og til að mynda mjólkurframleiðendur og hvað þá bændur í öðrum löndum,“ segir hann.
Á grundvelli þessara undanþáguheimilda sem lögin tryggðu hefur KS m.a. yfirtekið Kjarnafæði Norðlenska og í fjölmiðlum hefur nýlega verið greint frá mögulegum kaupum félagsins á B. Jensen, sem rekur sláturhús og kjötvinnslu.
Spurður hvort að ríkið verði mögulega skaðabótaskylt ef Samkeppniseftirlitið myndi gera athugasemd og kaupum KS á Norðlenska rift segir Sigurður:
„Nú erum við komin í „hvað ef“. Eins og ég segi þá hef ég nú ekki rýnt þennan dóm og ég held að það eigi nú að bíða með slíkar yfirlýsingar,“ segir hann.