Umsögn hæfnisnefndar vegna skipunar Svanhildar Hólm Valsdóttur sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hefur verið birt á vef Alþingis, auk frekari gagna vegna skipunarinnar.
Þar eru tilgreindar ástæður fyrir því að hún teljist hæf til að gegna embættinu.
Í hæfnisnefndinni voru Einar Gunnarsson, sendiherra og fastafulltrúi, Anna Jóhannsdóttir, skrifstofustjóri laga- og stjórnsýsluskrifstofu, og Hreinn Pálsson, mannauðsstjóri. Ráðherra óskaði eftir ráðgjöf laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins um mat á sérstöku hæfi sínu vegna skipunarinnar í skilningi stjórnsýslulaga.
Til viðbótar almennum skilyrðum kemur fram í umsögninni að sendiherra sem er skipaður tímabundið skuli hafa háskólamenntun og reynslu af alþjóða- og utanríkismálum eða sértæka reynslu sem nýtist í embætti, en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði einmitt á Alþingi hvernig það samræmdist lögum um utanríkisþjónustu Íslands að skipa sendiherra í Bandaríkjunum sem hefði enga starfsreynslu af utanríkismálum.
„Nefndin taldi augljóst að mat á hæfi væri að mestu hlutlægt og að byggja mætti á einföldum svörum sendiherraefnis um aðra þætti en mat á reynslu, endi kæmi ekkert fram í gögnum sem benti til annars. Hvað varðar mat á reynslu felur það hins vegar í sér huglægt mat sem fellur að einhverju leyti saman við mat á hæfni,“ segir í greinargerð hæfnisnefndarinnar.
„Hvað varðar mat á hæfni sendiherraefna þegar skipun er ráðgerð á grundvelli 1. mgr. 9. gr. UTL þykir rétt að líta til stjórnendastefnu ríkisins og framgangsviðmiða utanríkisþjónustunnar fyrir sendifulltrúa. Þegar skipun er ráðgerð á grundvelli 2. mgr. 9. gr. UTL eru kröfur um reynslu af alþjóða- og utanríkismálum vægari og því rétt að líta fremur til stjórnendastefnunnar ásamt drögum að erindisbréfi sendiherra á þeirri tilteknu starfstöð sem til stendur að sendiherraefnið veiti forstöðu,“ segir þar jafnframt.
Fram kemur að í stjórnendastefnu ríkisins sé kjörmynd stjórnenda samansett af fjórum lykilþáttum, þ.e. leiðtogahæfi, samskiptahæfni, árangursmiðaðri stjórnun og heilindum.
Nefndin óskaði eftir viðtali við sendiherraefnið og leitaði eftir umsögnum hjá umsagnaraðilum þar sem leitast væri við að varpa ljósi á þessa matsþætti.
„Að kvöldi 15. desember hélt nefndin fjarfund og gerðu nefndarmenn munnlega grein fyrir mati sínu á hæfni og almennu hæfi sendiherraefnis á grundvelli framangreindra gagna og viðtals. Nefndarmenn voru sammála um að Svanhildur Hólm Valsdóttir uppfyllti skilyrði 6. gr. STML og 2. mgr. 9. gr. UTL til að hljóta tímabundna skipun í embætti sendiherra til að gegna forstöðu í sendiráði Íslands í Washington og fólu formanni að ganga frá drögum að greinargerð þessari og formlegri umsögn um hæfni og almennt hæfi sendiherraefnis,“ segir í greinargerðinni.
Í umsögnin nefndarinnar kemur m.a. fram að Svanhildur Hólm hafi getið sér gott orð sem stjórnandi og leiðtogi í störfum sínum hjá Viðskiptaráði. Þá hafi hún getið sér gott orð sem leiðtogi, greinandi og hugmyndasmiður í störfum sínum sem aðstoðarmaður fjármála- og forsætisráðherra, aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
„Svanhildur kveðst líta á starf sendiherra sem þjónustu- og málsvarahlutverk öðru fremur og kveðst hafa brennandi áhuga fyrir að láta gott af sér leiða. Hún sér fyrir að hún geti nýtt þekkingu sína og reynslu af vettvangi stjórnmála, viðskipta, fjölmiðla og menningar til að styðja og verja íslenska hagsmuni í Bandaríkjunum og öðrum umdæmisríkjum sendiráðsins í Washington,“ segir jafnframt í umsögninni, þar sem hæfnisnefndin metur hana hæfa.