Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skrifaði í dag undir samninga um áframhaldandi stuðning úr Flugþróunarsjóði við Markaðsstofu Norðurlands, Flugklasann og Austurbrú, um beint millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu en þar kemur fram að markmið samninganna sé að styðja við markaðssetningu á Norðurlandi og Austurlandi sem áfangastað fyrir beint millilandaflug, í samræmi við stefnu stjórnvalda um að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um land allt sem og styðja við uppbyggingu nýrra áfangastaða.
„Um er að ræða 40 m.kr. framlag til hvors áfangastaðar um sig, sem dreifast á næstu tvö ár. Til viðbótar er einnig í samningnum við Markaðsstofu Norðurlands 20 m.kr. styrkur til Flugklasans Air 66N, en hann er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga og hagsmunaaðila, og hefur það verkefni að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem áfangastað fyrir millilandaflug allt árið um kring með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Lilja Alfreðsdóttir segir að það sé mikilvægt að haldið verði áfram að styðja við beint millilandaflug inn á Norðurland og Austurland. Með því sé stuðlað að verðmætasköpun með framþróun ferðaþjónustu, minnkun árstíðarsveiflu og dreifing ferðamanna víðar um landið.