Dómur héraðsdóms án fordæma

Héraðsdómur Reykjavíkur við Austurstræti.
Héraðsdómur Reykjavíkur við Austurstræti. Ljósmynd/Þór

Dr. Hafsteinn Dan Kristjánsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir í samtali við Morgunblaðið að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, um að afgreiðsla búvörulaganna hefði verið í andstöðu við stjórnarskrá, þýði að lögin hafi ekki gildi og þar með engin réttaráhrif.

Þó eru miklar líkur á því að málið endi hjá Hæstarétti og hann skeri úr um hvort búvörulögin standi eða hvort dómur héraðsdóms verði staðfestur.

Samkeppniseftirlitið þurfi að taka afstöðu til þess hvort það vilji áfrýja málinu til hærra dómstigs sem tæki afstöðu.

„Ef þau vilja ekki áfrýja – sem gæti vel verið að sé niðurstaðan vegna þess að af þessari niðurstöðu leiðir í sjálfu sér að samkeppnislögin gilda, á meðan búvörulögin kipptu þeim úr sambandi – þá gæti það gerst í framhaldinu að Samkeppniseftirlitið beitti sér gagnvart einhverjum kjötafurðastöðvum,“ segir Hafsteinn.

Ekki endanleg niðurstaða í sögunni

Hann telur allar líkur á því að kjötafurðastöðvarnar höfði mál og láti reyna á gildi þessara ákvarðana og beri fyrir sig samþykkt búvörulaganna. Þá félli líklega nýr héraðsdómur og mögulega færi málið til Landsréttar og að lokum Hæstaréttar.

„Þannig að þessi héraðsdómur er líklega ekki endanlega niðurstaðan í allri þessari sögu. En maður veit aldrei, þetta eru bara spádómar. Ef héraðsdómurinn væri lokaniðurstaðan og þetta stæði þá væri það eins og þessi búvörulög hefðu ekkert lagagildi af því að þau voru ekki sett á réttan hátt,“ segir Hafsteinn.

Hann segir dóm héraðsdóms aðeins binda aðila máls eins og Samkeppniseftirlitið og tekur fram að dómar héraðsdóms hafi takmarkað fordæmisgildi.

„Sem er einmitt ástæða þess að fólk vill fá dóm Hæstaréttar, sem hefur þá fordæmisgildi fyrir alla,“ segir Hafsteinn.

Fyrsta sinnar tegundar

Dómurinn sé án fordæma en til séu tvö dæmi þar sem lög voru ekki talin hafa gildi vegna mistaka.

„Þetta tiltekna mál er fyrsta mál sinnar tegundar, það er að segja að verið er að láta reyna á það að efnislegar breytingar milli frumvarpa með breytingartillögu hafi gengið of langt. En það eru tvö eldri fordæmi þar sem hafa orðið formannmarkar – í raun mistök – þar sem textinn skolaðist til milli umræðna. Í þeim málum töldu dómstólar að lögin hefðu ekki lagagildi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert