Erfitt að rifja atvikið upp

Steina Árnadóttir í dómsal í morgun.
Steina Árnadóttir í dómsal í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur haft víðtæk áhrif á mitt líf,” sagði fyrrverandi samstarfskona Steinu Árnadóttur hjúkrunarfræðings í dómsal í dag. Hún segist glíma við mikla áfallastreitu í tengslum við andlát sjúklingsins sem Steina er sökuð um að hafa banað í ágúst 2021.

Töluverðs ósamræmis gætir í framburði samstarfskvennanna þriggja og Steinu sem voru á vakt umræddan dag.

Ein kvennanna lýsti því þannig að Steina hefði „pínt“ næringardrykk ofan í sjúklinginn sem leiddi til þess að hún kafnaði og lést. Hinar tvær sögðu Steinu hafa „hellt“ ofan í sjúklinginn.

Konurnar sammæltust um að sjúklingurinn hefði gefið frá sér merki um að hún vildi ekki fá meira að drekka.

Muna ekki eftir smáatriðum

Ein konan lýsti því að Steina hafi haldið aftur höfði sjúklingsins á meðan hún hellti drykknum ofan í hann.

Þó gætti ósamræmis á milli framburðar kvennanna um hvort Steina hefði látið sjúklinginn drekka úr glasi eða beint úr umbúðunum, og einnig hverjir voru inni í herberginu og á hvaða tímapunkti.

Spurðar af Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, verjanda Steinu, hvort þær gætu skýrt þetta ósamræmi svöruðu þær neitandi. Langt er liðið frá atburðunum og þær sögðust ekki muna eftir öllum smáatriðum.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Steinu.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Steinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varð hrædd

Konan sem greindi frá áfallastreituröskuninni sagði margt mjög óljóst í dag og að erfitt væri að rifja atvikið upp. Hún lýsti því fyrir dómi að erfitt hafi verið að þurfa að hafa gengið í gegnum þetta.

Konan sem sagði Steinu hafa „pínt“ sjúklinginn til að drekka lýsti því að hún hafi orðið hrædd við að horfa á atvikið og því hlaupið út úr herberginu.

Spurð af hverju hún gerði ekkert til að bjarga sjúklingnum sagðist hún ekkert hafa getað gert vegna meðferðar Steinu.

Þriðja konan sagði að Steina hafi beðið hana um að halda aftur að höndum sjúklingsins á meðan hún hellti tveimur næringardrykkjum ofan í hann. Steina hafi sagt við hana hvasslega að halda áfram í hendurnar þegar hún sleppti þeim á einum tímapunkti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka