Heildarflatarmálið stækkar við endurskoðun

Horft er yfir Hverfjall til norðurs.
Horft er yfir Hverfjall til norðurs.

Heildarflatarmál náttúruvættisins Hverfjalls í Mývatnssveit stækkar úr 3 ferkílómetrum í 3,78 ferkílómetra við endurskoðun friðlýsingar.

Endurskoðun friðlýsingarinnar er hluti af samvinnu landeigenda í Vogum í Mývatnssveit, Umhverfisstofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í sambandi við framtíðarfyrirkomulag náttúruvættisins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði endurskoðun friðlýsingarinnar í dag en með breytingunni verða mörk svæðisins dregin lengra austan megin við Hverfjall, en dregin nær Hverfjalli vestan við það.

Ein fegursta öskugígamyndun landsins

Hverfjall er stór, hringlaga öskugígur sem myndaðist fyrir um 2.500 árum í þeytigosi í grunnu stöðuvatni og er sérstakur að því leyti að gígskálin er álíka djúp og gígurinn er hár. Gígurinn er talinn ein fegursta öskugígamyndun á Íslandi og ein sú stærsta sinnar tegundar á jörðinni.

„Ég vil þakka landeigendum Voga í Mývatnssveit fyrir samstarfið í þessu verkefni. Þetta verkefni er hluti af þeirri nýju nálgun sem ég hef talað fyrir í náttúruvernd, sem snýr að aukinni aðkomu heimafólks að náttúruperlum í þeirra nærumhverfi,“ er haft eftir ráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.

„Mín sýn og landeigenda var sú sama, þ.e. að tryggja að náttúrperlunni Hverfjalli væri sýndur sá sómi sem hún á skilið. Samningurinn og endurskoðun friðlýsingarinnar sem við unnum að með landeigendum tryggir þeirra aðkomu að vernd og stjórn svæðisins og byggir á því að landeigendur hafi umsjón með hinu friðlýsta svæði, innviðum þess og þjónustu þannig að Hverfjall verði til framtíðar fjárhagslega sjálfbær ferðamannastaður í hæsta gæðaflokki samhliða því að verndargildi svæðisins verði viðhaldið til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert