Kennarar hafa hafnað tveimur tilboðum

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kennarar hafa fengið tvö tilboð frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, en þeim var báðum hafnað. Formaður Kennarasambands Íslands hefur þó fullyrt annað í fjölmiðlum. Þetta segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

„Við erum með tilboð sem við höfum lagt fyrir þá, þó að Magnús hafi sagt annað í fjölmiðlum, þá hafa þeir fengið tilboð frá okkur sem þeir hafa hafnað, tvö. En við förum vonandi að komast á betri stað núna. Ég hef alla trú á því,“ segir Inga og vísar þar til ummæla Magnúsar Þórs Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands.

Skipti miklu máli að geyma viðmiðunarhópa

Boðað hefur verið til samningafundar hjá ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag, en sautján dagar eru frá síðasta formlega fundi samninganefndanna.

„Það var unnið að þessu í síðustu viku og í gær líka á formannafundum og í alls konar samtölum og á minni fundum. Vonandi ber þetta einhvern árangur í dag að hreyfa okkur eitthvað áfram.“

Inga segir það skipta miklu máli ef kennarar eru tilbúnir að setja til hliðar kröfu um að finna viðmiðunarhópa á almennum markaði til að jafna laun þeirra við. 

Ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is að kennarar hefðu fallist á að prófa nýja aðferðafræði og að setja til hliðar í bili kröfuna um viðmiðunarhópa. Var það forsenda fyrir því að hægt var að boða til samningafundar. Að mati ríkissáttasemjara er fullreynt að finna slíka viðmiðunarhópa.

„Það kemur í ljós í dag hvernig það fer í þá“

Inga segir það hins vegar verða að koma í ljós á fundinum á eftir hvort krafan verði raunverulega sett til hliðar, en hugmyndin sé að geyma það.

„Það kemur í ljós í dag hvernig það fer í þá.“

Aðspurð segir hún viðræðurnar á frumstigi. 

„Það er verið að reyna að komast á betri stað til að geta farið að semja almennilega.“

Verkfallsaðgerðir kennara standa nú yfir í tíu skólum. Í níu skólum hafa aðgerðir staðið yfir frá því 29. október, en í gær bættist tíundi skólinn við. Alls hafa verið boðuð verkföll kennara í þrettán skólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka