Kýldi gest á Catalínu sem ónáðaði aðra gesti

Veitingastaðurinn Catalina í Hamraborg.
Veitingastaðurinn Catalina í Hamraborg. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður hefur verið dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi og til að greiða öðrum manni 400 þúsund krónur fyrir að hafa kýlt hann á skemmtistaðnum Catalínu í Hamraborg í Kópavogi í desember árið 2022.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er atvikum í málinu lýst. Þar kemur fram að lögregla hafi verið kölluð á staðinn vegna slagsmála. Kom í ljós að gestur á staðnum hafði kýlt annan gest sem rotaðist við höggið og féll í gólfið. Hlaut hann meðal annars nefbrot og höfuðverk.

Í skýrslutökum lýsti eigandi Catalínu, sem hafði horft á upptöku af atvikum, því að sá sem fyrir árásinni varð hafi verið með ögrandi tilburði gagnvart konu árásarmannsins og viðbrögðin hafi verið að eiginmaðurinn hafi kýlt hann. Þrátt fyrir óskir lögreglu um myndefni úr eftirlitskerfi staðarins skilaði það sér ekki og sagði eigandinn að hann hafi ekki náð að vista upptökuna fyrr en hún varð óaðgengileg.

Vitni sagði að sá sem fyrir árásinni varð hafi verið ofurölvi og að ónáða aðra gesti. Hafi hann ýtt harkalega við konunni áður en hann var kýldur. Árásarmaðurinn og kona hans sögðu hins vegar að sá sem fyrir árásinni varð hafi slasast við að hafa dottið.

Sagði brotaþolinn að hann hefði verið að spila í spilakössum og orðið pirraður þegar fólkið hafði afskipti af sér. Hafi mögulega komið við konuna en ekki slegið hana. Svo hafi hann fundið högg og næst vaknað þegar verið væri að hjálpa honum í sjúkrabíl.

Í dómi héraðsdóms segir að lögfull sönnun sé að sá sem ákærður sé hafi veist að hinum og slegið hann hnefahöggi í andlitið. Tekið er fram að ástand mannsins og ögrandi háttsemi réttlæti ekki líkamlegt ofbeldi gegn honum og kemur ekki til mildunar á refsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert