„Líf mitt er búið”

Steina Árnadóttir í dómsal í dag.
Steina Árnadóttir í dómsal í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er tóm skel. Ég er ekki í lífinu,“ sagði Steina Árnadóttir hjúkrunarfræðingur spurð af lögmanni hennar um hagi hennar í dag, rúmlega tveimur árum eftir að ákæra var gefin út á hendur henni um manndráp í opinberu starfi. 

Aðalmeðferð í máli Steinu hófst aftur í dag eftir að sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur var ómerktur af Landsrétti í apríl á þessu ári. Lagt er fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar á ný og fella síðan á það efnisdóm. Héraðsdómi er meðal annars gert að meta hvort Steina hafi gerst sek um manndráp af gáleysi.

16. ágúst árið 2021 kafnaði sjúklingur inni á geðdeild 33A á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík. 

Samkvæmt ákæru er Steina sökuð um að hafa svipt sjúklinginn lífi, með því að þröngva ofan í hann innihaldi úr tveimur flöskum af næringardrykk þrátt fyrir að sjúklingurinn gæfi til kynna að hann vildi ekki drykkinn, allt með þeim afleiðingum að drykkurinn hafnaði í loftveginum, sem hindraði loftflæði um lungun og olli öndunarbilun og sjúklingurinn kafnaði. 

Hafnar gáleysi

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari hóf skýrslutöku yfir Steinu á að spyrja hvort hún vildi bæta einhverju við fyrri skýrslutöku fyrir dómi í maí árið 2023.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Steinu, greip þá fram í og sagði að það væri ekki hægt að ætlast til að hún muni hvað hún sagði fyrir einu og hálfu ári.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson verjandi Steinu.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson verjandi Steinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steina fór síðan yfir aðdraganda andlátsins sem samræmdist fyrri skýrslutöku sem greint var frá á mbl.is á sínum tíma.

Steina lýsti því fyrir dómi í dag að hún hefði verið yfirgefin af samstarfsfólki sínu á vaktinni er stóð í sjúklingnum og að „því miður“ var ekki hægt að bjarga sjúklingnum.

Steina hafnaði alfarið gáleysi í starfi.

Gerði allt í sínu valdi

Spurð af Vilhjálmi verjanda um hagi hennar í dag svaraði Steina að líf hennar væri búið.

Hún segist hafa verið kölluð inn í aðstæður sem hún vissi ekki hvernig byrjuðu. Steina segist hafa gert allt í sínu valdi til þess að bjarga sjúklingnum. Hún segist miður sín að „þetta skyldi enda svona“.

Steina sagði að það hefði verið skráð alls staðar að sjúklingurinn ætti að vera á fljótandi fæði, en grænmetisbiti stóð í honum er Steina kom að honum.

Ekki hluti af neinu

Í dag er Steina öryrki og hefur glímt við mikil veikindi, bæði líkamleg og andleg. Hún greindist með brjóstakrabbamein og fór í aðgerð vegna þess í febrúar.

Steina lýsti því að hún þyrfti á miklum stuðningi að halda. Systir hennar væri hennar stoð og stytta og þá hefði Vilhjálmur bjargað henni.

Steina sagðist ekki vera hluti af neinu í dag. Hún hefði lært sjúkraliðanám og hjúkrunarfræði á sínum tíma og alltaf haft það að leiðarljósi að hjálpa og bjarga fólki.

„Alla tíð reynt að gera hið rétta, en líf mitt er búið,“ sagði Steina á einum tímapunkti. 

Skýrslutaka yfir Steinu tók rúman hálftíma og yfirgaf hún dómsal að henni lokinni. Verjandi hennar upplýsti dómara um að Steina væri á leið á geðdeild á Akureyri.

Steina er á sjötugsaldri.
Steina er á sjötugsaldri. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka