Margir nemendur upplifa óöryggi og kvíða

Sólveig Guðrún Hannesdóttir er rektor Menntaskólans í Reykjavík.
Sólveig Guðrún Hannesdóttir er rektor Menntaskólans í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir alltaf einhverja nemendur nýta sér það að skólinn sé opinn á meðan kennarar eru í verkfalli. Það skipti máli fyrir marga að geta komist að heiman og hitta félagana. Einhverjir nýti það líka að geta lært saman.

Hún segir óvissu vegna verkfalla þó fara illa í marga nemendur. Það geti valdið óöryggi og kvíða.

„Sumir nemendur eiga erfitt með að vera lengi frá skólanum eða vera heima við, þannig þetta er alls ekki gott ástand. Skólinn er ákveðinn griðastaður. Við fundum það alveg í Covid að það eru nemendur sem sækja í það að komast út af heimilinu og þá er mikilvægt að þau eigi sér aðstöðu hér,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is

Þá segir hún að Skólafélagið ætli líka að standa fyrir einhverjum viðburðum svo nemendur fá tækifæri til að koma saman og hittast. Gott sé fyrir nemendur að reyna að halda smá rútínu.

Fimm stundakennarar sinna áfram kennslu

Kennarar í MR hófu verkfallsaðgerðir í gær og munu þær standa til 20. desember, náist samningar ekki á næstunni. 

Það liggur þó ekki öll kennsla niðri því fimm stundakennarar sem ekki eru félagar í Kennarasambandi Íslands sinna áfram kennslu.

„Það eru nánast allir kennarar hér sem eru annað hvort kennarar eða leiðbeinendur en þetta eru kennarar sem kenna einum hópi hver, eru að leysa af eða eitthvað slíkt,“ útskýrir Sólveig.

Í MR eættu að vera tvær vikur eftir af kennslu á þessari önn og jólapróf ættu að hefjast um mánaðamótin. Þau verða aftur á móti ekki haldin í desember, að öllu óbreyttu.

Rektor má ganga í öll störf

Sólveig getur ekki sagt til um það hvort prófunum verði frestað fram á næsta ár, þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig unnið verði úr haustmisserinu.

„Flestir áfangar okkar eru heilsársáfangar þannig jólaprófin okkar eru ekki endilega lokapróf. En við munum vinna einhvers konar námsmat í janúar ef verkfallið stendur til 20. desember.“

Spurð hvort það teljist nokkuð verkfallsbrot að hafa skólann opinn, segir hún svo ekki vera.

„Ég er hér og ég má ganga í öll störf, húsvörður er hér og stuðningsfulltrúi í starfsdeildinni, ásamt fleirum. Það er líka starfsmaður í sjoppu nemenda. Svo er það líka þannig hérna í skólanum að nemendurnir eiga sína eigin heimastofu. Í öðrum skólum er það yfirleitt þannig að kennararnir sjá um stofurnar, en það er ekki þannig hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka