Meðferðarheimilið Lækjarbakki hefur fengið nýtt húsnæði í Miðgarði í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Það mun hefja þar starfsemi á nýjan leik að loknum nauðsynlegum framkvæmdum.
Í tilkynningu í maí síðastliðnum kom fram að starfsemi Lækjarbakka ætti að hefjast á nýjum stað í Hamarskoti í Flóahreppi í júní. Hætta þurfti starfsemi heimilisins þegar mygla fannst í gömlu húsnæði þess.
Fram kemur í tilkynningu sem barst í morgun að heimilið sé hið eina sinnar tegundar á landinu og bjóði upp á langtímameðferð fyrir drengi sem lokið hafa greiningu og meðferð á öðrum heimilum.
Meðferðin er ætluð unglingum, á aldrinum 14 til 18 ára, sem glíma við alvarlegan vanda á borð við vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrot, skóla- og námserfiðleika eða sálfélagslegan vanda, þegar önnur úrræði duga ekki til.
Á heimilinu eru allt að sex drengir hverju sinni í um sex mánuði en tímalengd meðferðar er mismunandi eftir einstaklingum. Sérstök áhersla er lögð á að virkja drengina í tómstundum, skóla og vinnu til að hjálpa þeim við að takast á við áskoranir að meðferð lokinni. Við lok meðferðar stendur þeim til boða sex mánaða eftirfylgd.
„Mennta- og barnamálaráðuneytið og Barna- og fjölskyldustofa hafa unnið stíft að því að finna nýtt húsnæði frá því að loka þurfti húsnæðinu í nágrenni Hellu í vor þar sem starfsemin var áður en það húsnæði var dæmt ónothæft. Leitin hefur átt sér stað í góðu samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og fleiri aðila, einkum Land og skóg sem er með starfsemi í Miðgarði en mun nú flytja þá starfsemi í önnur hús á staðnum. Húsnæðið er talið henta vel fyrir meðferðarheimilið Lækjarbakka,“ segir í tilkynningunni.