Ólíklegt að það gjósi í nóvember

Landris heldur áfram undir Svartsengi. Horft yfir Voga.
Landris heldur áfram undir Svartsengi. Horft yfir Voga. mbl.is/Árni Sæberg

Ólíklegt er að eldgos brjótist út á Reykjanesskaga í nóvember samkvæmt nýjustu gögnum Veðurstofu Íslands. Þegar það gerist þó er viðbúið að atburðarás síðustu mánaða endurtaki sig. Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóra Suðurnesja.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann ákvað þann í september að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig.

Opnað var fyrir aðgengi almennings að Grindavík í síðasta mánuði. Fáir Grindvíkingar kjósa þó að dvelja í bænum yfir nóttina.

Sjúkrabíll er staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma og sinna lögregla og slökkvilið lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur.

Opin svæði víðsjárverð

Í tilkynningu lögreglustjórans segir að opin svæði í nágrenni bæjarins séu víðsjárverð og að þau hafi ekki verið skoðuð sérstaklega. Mælir lögreglustjórinn gegn því að fólk gangi til að mynda á fjallið Þorbjörn, Hagafell og önnur nærliggjandi fjöll.

Opnar sprungur liggja við Nesveg og á Hópsnesi.

Þá eru svæði norðan bæjarmarkanna sögð varasöm. Í tilkynningunni er ítrekað að íbúar, starfsmenn og aðrir sem dvelja á hættusvæði geri það á eigin ábyrgð.

„Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi. Lögreglustjóri tekur fram að Grindavík er ekki ákjósanlegur staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar er ekkert skóla- og íþróttastarf,“ segir í tilkynningunni.

Sprengjusvæði hættuleg

Þá er athygli vakin á því að á svæði sunnan Voga og Reykjanesbrautar hafi verið leitað að sprengjum í gegnum tíðina. Er það svæði talið mengað af virkum og óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa. Geta hiti eða hreyfingar haft áhrif.

Stærð svæðisins og lega liggja ekki fyrir. Viðbragðsaðilar eru hvattir til að halda sig við merkta gönguslóða á svæðinu.

„Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju getur valdið manntjóni. Á svæðinu eru fallbyssukúlur, sprengjuvörpur (mortar) og æfingasprengjur.“

Ekki liggja fyrir upplýsingar um stærð svæðisins þar sem sprengjur …
Ekki liggja fyrir upplýsingar um stærð svæðisins þar sem sprengjur eru taldar geta leynst. Landhelgisgæslan hefur þó teiknað upp þetta kort.
Hér má sjá sprengjur sem hafa fundist á svæðinu.
Hér má sjá sprengjur sem hafa fundist á svæðinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert