Sala hafin í fyrsta Airbus-flug Icelandair

Airbus-vél þessi mun fljúga til Stokkhólms frá Keflavíkurflugvelli 10. desember.
Airbus-vél þessi mun fljúga til Stokkhólms frá Keflavíkurflugvelli 10. desember. Ljósmynd/Icelandair

Væntanleg Airbus-flugvél Icelandair var tekin í fyrsta prufuflug sitt fyrir ofan Hamborg og Berlín í Þýskalandi fyrr í dag.

Von er á því að vélin verði afhent í byrjun desember en fyrsta áætlunarflug hennar er komið í sölu og verður að morgni 10. desember þegar hún flýgur til Stokkhólms í Svíþjóð.

Þetta staðfestir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Von á fleiri vélum

Guðni segir prufuflugið hafa verið framkvæmt af flugmönnum á vegum flugvélaframleiðandans Airbus.

Sem fyrr segir er von á afhendingu vélarinnar í byrjun desember en Guðni segir að stefnt sé að afhendingu þriggja annarra fyrir sumarið 2025.

Á næstunni munu fulltrúar Icelandair fá að vera með um borð í prufuflugi að sögn Guðna

Enn eigi eftir að ganga frá ákveðnum prufum og formsatriðum, en hann kveðst viss um að vélin fáist afhent í byrjun desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert