Guðmundur Fylkisson, eða Gummi lögga, er sá sem leitar að börnum og ungmennum sem tilkynnt er um sem týnd, eða hafi strokið úr vistun í úrræðum vegna fjölþætts vanda. Honum finnst skrítið að enn sé uppi sú staða að einungis eitt úrræði sé til staðar fyrir neyðarvistun. Þar séu vistuð bæði ung börn með hegðunarvanda á sama stað og ungmenni í neyslu. Hann segir þetta sömu stöðu og uppi var þegar hann tók að sér þetta verkefni fyrir áratug.
Gummi lögga er gestur Dagmála í dag og ræðir þar þá mynd sem við honum blasir í þessum viðkvæma málaflokki. Hann gagnrýnir að langtíma úrræðinu sem var til staðar í Háholti í Skagafirði hafi verið lokað með einu pennastriki, í sparnaðarskyni. Við séum að súpa seyðið af þeirri ákvörðun núna.
Öðru úrræði var lokað þar sem drengir voru vistaðir til lengri tíma. Sú lokun kom til vegna myglu í húsnæði. Ekki hefur tekist að finna nýjan stað fyrir þetta úrræði. „Það er þannig með okkur Íslendinga að við viljum að allt sé gert fyrir alla bara á meðan það er ekki í garðinum hjá okkur, þannig að við þurfum ekki að sjá það,“ segir Guðmundur. Hann segir þetta ástæðuna fyrir því að dregist hafi að opna úrræðið á nýjan leik á nýjum stað. Án þess að fara nánar út í það virðist vera sem mögulegir nágrannar séu stærsta hindrunin þegar leitað er að nýjum stað.
Í þættinum fer Gummi lögga yfir starfið og samskiptin við bæði ungmennin og einnig aðstandendur. Hann hefur leitað að og fundið tæplega fimm hundruð börn og unglinga á þessum áratug. Þegar starfið varð til á sínum tíma var sett það markmið að halda þessu börnum á lífi fram yfir átján ára aldur, en þegar þau ná þeim aldri eru þau úr umsjón barnaverndaryfirvalda.
Gummi segir margt gott hafa verið gert en víða sé hægt að gera betur og þurfi að gera betur. Hann vitnar til foreldra og aðstandenda sem oft líði miklar sálarkvalir og angist. Þar telur hann þurfa meiri stuðning. Hann hefur orðið vitni að hjónaskilnuðum, heilsubresti og sjálfsvígshugleiðingum hjá aðstandendum séu oft fólk sem er að bugast undan því álagi sem fylgir því þegar börn og unglingar lenda út af sporinu.
Fróðlegt viðtal við mann sem vinnur merkilegt og mikilvægt starf. Með fréttinni fylgir hluti af viðtalinu en þátturinn í heild er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins