Telur sig vita hvað gerðist

Fyrir liggur að Geirfinnur keypti sígarettur í Hafnarbúðinni kvöldið sem …
Fyrir liggur að Geirfinnur keypti sígarettur í Hafnarbúðinni kvöldið sem hann hvarf en stoppaði stutt við. Ljósmynd úr safni Morgunblaðsins

Sigurður Björgvin Sigurðsson, höfundur nýrrar bókar, Leitin að Geirfinni, telur sig vita hvað henti Geirfinn Einarsson að kvöldi 19. nóvember 1974. Geirfinnur hafi beðið bana í átökum en tengist ekki á nokkurn hátt því sem lögreglan og saksóknari héldu fram og dæmt var eftir í Hæstarétti árið 1980. Hin dæmdu voru sýknuð árið 2018 eins og þekkt er.

Sigurður og fólkið sem aðstoðaði hann við gerð bókarinnar munu koma gögnum og vísbendingum sem þau hafa undir höndum til embættis ríkissaksóknara.

„Mér finnst það eðlilegast og velti því fyrir mér hvort ég hafi jafnvel sagt aðeins of mikið í bókinni. En þessar upplýsingar eiga heima hjá saksóknara. Yfirvöld geta notast við rannsóknarheimildir sem ég get ekki. Að mínu mati þarf að ljúka þessu máli og það ætti ekki að vera erfitt þótt vitaskuld megi fara varlega að fólki,“ sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ekki verður annað sagt en að Sigurður Björgvin og aðstoðarfólk hans bjóði upp á eitthvað nýtt í bókinni því þar stígur fram nágranni Geirfinns sem segist beinlínis hafa orðið vitni að átökum við heimili Geirfinns að kvöldi 19. nóvember og þá á barnsaldri. Þar hafi Geirfinnur legið eftir, annaðhvort látinn eða stórslasaður, en vitnið flúði skelkað heim til sín.

Nágrannar aldrei yfirheyrðir

Í bókinni er því haldið fram að málsatvik hafi verið með allt öðrum hætti en rannsóknin gekk út á. Geirfinnur hafi ekki átt stefnumót við neinn í Hafnarbúðinni heldur hafi einfaldlega keypt sér sígarettur. Hann hafi ekki fengið símtal eftir að hann kom heim og hafi ekki gengið heim heldur fengið far.

Í bókinni er bent á að lögreglan hafi aldrei rætt við nágranna Geirfinns en bókarhöfundur hefur heimildir fyrir því að nágrannar hafi heyrt öskur koma frá heimili Geirfinns um kvöldið. Svipaða frásögn er að finna í skýrslu lögreglunnar. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka