„Þau höfðu verið að deyja þessir krakkar“

Eitt af markmiðunum þegar Guðmundur Fylkisson lögreglumaður tók við því verkefni að leita að börnum og ungmennum, var að halda þeim lifandi. „Þau höfðu verið að deyja þessir krakkar,“ upplýsir Gummi lögga.

Hann tók við starfinu 1. nóvember 2014 og í mánuðinum á undan hafði ung stúlka látist í kringum sextán ára afmælisdaginn sinn. 

„Markmiðið var að halda þeim lifandi fram að átján ára aldri. Það tókst.“ Hann rifjar upp að af þeim 490 börnum sem hann hefur haft afskipti af á liðnum áratug hafi sjö látist og þar af tvö undir átján ára aldri. „Það gerðist á þessu ári. Hin fimm létust eftir að þau voru orðin átján ára.“

„Þetta er martröðin mín“

Martröðin hans í þessu starfi er þegar illa gengur að finna barn og hann veit að viðkomandi er í neyslu, þá hugsar hann; „Er þetta barnið sem finnst á meðan ég er að leita að því. Það hefur ekki gerst. Þessi tvö börn sem eru undir átján ára aldri, sem dóu á þessu ári, dóu ekki á meðan ég er að leita að þeim. Annað þeirra dó í brunanum á Stuðlum og hinn deyr heima hjá sér. Þetta er martröðin mín og það hefur ekki gerst og gerist vonandi ekki.“

Þetta er þungur málaflokkur og tekur á alla sem að koma. Þannig viðurkennir Gummi að andlát Geirs, sem lést á Stuðlum í brunanum, hafi tekið mjög á hann og hann þurft að kúpla sig aðeins frá eftir þann harmleik.

Guðmundur Fylkisson er gestur Dagmála í dag og fer þar yfir starfið og stöðuna í þessum málaflokki. Hann finnur aukningu í ár í fjölda leitarbeiðna en segir það sveiflast milli ára hversu margar beiðnir hann fær.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert