„Ættum að vera komin á tiltölulega lygnan sjó um mitt næsta ár“

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. Samsett mynd

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, fagnar mjög ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig.

„Þetta eru virkileg gleðitíðindi en í sjálfu sér koma þau mér ekkert á óvart. Það er er búið að undirbyggja þetta frá því var skrifað undir kjarasamninga og verðbólgan hefur verið að gefa eftir. Þá er mjög eðlilegt að Seðlabankinn láti stýrivextina fylgja eftir líka,“ segir Finnbjörn við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um stýrivaxtalækkunina.

Finnbjörn segir að eins og hans fólki sjái þróunina þá gerist ekkert annað en að verðbólgan gefi enn frekar eftir. Hann segir að vaxtalækkunarferlið sé hafið af fullum krafti.

„Við ættum að vera komin á tiltölulega lygnan sjó um mitt næsta ár,“ segir forseti Alþýðusambandsins.

Stjórnmálin í nokkuð góðu jafnvægi

Finnbjörn segist ekki hafa áhyggjur af því að alþingiskosningarnar sem fram undan eru trufli vaxtalækkunarferlið.

„Það getur gerst ef einhverjir ætla að vera með einhverjar flugeldasýningar. Auðvitað eru hin og þessi kosningaloforð stjórnmálaflokkanna og þess háttar til umræðu en mér finnst einhvern veginn stjórnmálin vera í nokkuð góðu jafnvægi. Ég óttast það ekkert sérstaklega að kosningarnar trufli þetta ferli,“ segir Finnbjörn.

Hann segir að 0,5 prósenta lækkun stýrivaxtanna sé gríðarlegur ávinningur fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu sem muni svo sannarlega um.

„Ég tel að við í verkalýðshreyfingunni höfum lagt grunninn að því að þetta vaxtalækkunarferli er komið af stað með þeim kjarasamningum sem við gerðum. Með þeim hafi komið ró og fyrirsjáanleiki á markaðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka