Án fordæma á lýðveldistímanum

Að sögn Þórdísar hefur ekki orðið vart við rússneska kafbáta …
Að sögn Þórdísar hefur ekki orðið vart við rússneska kafbáta við Íslandsstrendur undanfarið. Samsett mynd/mbl.is/Ólafur Árdal

„Það sem er að gerast í álfunni okkar núna eru hlutir sem eiga sér ekkert fordæmi á lýðveldistímanum. Því fylgir gríðarleg ábyrgð hjá stjórnvöldum að tala um það við almenning og vinna út frá því,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Kveður hún mikilvægt að næsta ríkisstjórn vinni staðfastlega að varnarmálum áfram eins og gert hafi verið á Íslandi, ekki síst í ljósi þróunar mála í nágrannalöndum, vaxandi spennu í Úkraínu og aukinnar tortryggni í garð Rússlands.

„Þegar við lítum í kringum okkur til Norðurlandanna blasir við okkur staða sem við sem samfélag verðum að fara að átta okkur á hver raunverulega er,“ segir hún og vísar til fregna af líklegum skemmdarverkum á sæstrengjum í Eystrasalti. Reynist það rétt eru allar líkur á að Rússar beri ábyrgð að sögn stjórnmálaskýrenda.

Að sögn Þórdísar hefur ekki orðið vart við rússneska kafbáta við Íslandsstrendur undanfarið.

Helgast það ekki síst af því að á síðasta ári var bandarískum kafbátum gert heimilt að fara um íslenska landhelgi. Gerð var aðstaða fyrir kafbátana til að koma til Íslands á Suðurnesjum.

„Bandalagsríkin vinna náið saman um ferðir Rússa. Stuðningur okkar við kafbátaeftirlit Bandaríkjanna og önnur bandalagsríki er mikilvægur liður í því að bæta stöðuvitund okkar á Norður-Atlantshafi,“ segir Þórdís.

Stjórnvöld í Svíþjóð og Finnlandi hafa sent upplýsingar til almennings þar sem fólk er hvatt til þess að vera reiðubúið undir stríðsátök. Þórdís segir að stjórnvöld hér hafi í hyggju að kortleggja viðnámsþol samfélagsins.

„Það sem mér finnst skipta máli fyrir stjórnmálin, almenning og fjölmiðla á Íslandi er að meðtaka það sem er að gerast í kringum okkur,“ segir hún. „Það að Norðurlöndin öll séu að biðja fólk að vera viðbúið er tímanna tákn. Það, ásamt því að við séum að kortleggja það að hlutirnir geti breyst, segir okkur að spennan er að aukast og við erum ekki ónæm fyrir því sem er að gerast.“

Kínverskt skip sem grunað er um að hafa rofið sæstrengina hafði seint í gærkvöldi varpað akkerum fyrir miðju Kattegat og hjá því sigldu dönsk herskip, miðað við opinber kortagögn.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert