Átti ekki að láta pirring bitna á sjúklingi

Steina Árnadóttir í dómsal.
Steina Árnadóttir í dómsal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekist var á um ásetning Steinu Árnadóttir hjúkrunarfræðings til að verða sjúklingi á geðdeild að bana þann 16. ágúst árið 2021 í málflutningi verjanda og sækjanda í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari sagði að dæma skyldi Steinu fyrir manndráp af ásetningi, en í það minnsta manndráp af gáleysi. Hún lagði það í mat dómsins að ákvarða refsingu ákærðu.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson verjandi fer fram á að Steina verði sýknuð af öllum ákæruliðum og sagði að enginn ásetningur hafi verið til staðar.

Þrjár lagagreinar

21. júní árið 2023 sýknaði sami dómur og er nú að störfum Steinu af ákæru um manndráp í opinberu starfi, en hún er ákærð fyrir brot á 211. gr. almennra hegningarlaga.

Þar segir: „Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“

Dómurinn taldi ósannað að Steina hafi á verknaðarstundu haft ásetning til að svipta brotaþola lífi.

26. apríl 2024 úrskurðaði Landsréttur að héraðsdómi bæri að gefa sakflytjendum færi á að flytja málið út frá því hvort heimfæra mætti ætlað brot hennar undir 2. mgr. 218. gr. laganna, ellegar 215. gr. þeirra.

Í 2. mgr. 218. gr. segir: „Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.“

Í 215. gr. segir: „Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum … 1) eða fangelsi allt að 6 árum.“

Lögmaður bótakrefjanda og Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari.
Lögmaður bótakrefjanda og Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brestir í hæfni og dómgreind

Dagmar sagði að Steina hefði, þrátt fyrir að samstarfskonur hennar á umræddri vakt vöruðu hana við og sjúklingurinn bæði hana um að hætta, hellt tveimur næringardrykkjum ofan í brotaþola með þeim afleiðingum að hún kafnaði og lést.

Ljóst væri að ýmsu væri ábótavant í starfsumhverfi Steinu þennan dag og hún því pirruð.

Bæði embætti landlæknis og Landspítalinn gáfu út skýrslur um hvað misfórst þennan dag. Meðal annars var nefndur mönnunarvandi, óreyndir starfsmenn og að sjúklingurinn hefði verið á röngu þjónustustigi.

Dagmar sagði Steinu eflaust hafa haft rétt á því að vera pirruð en að hún hafi ekki átt rétt á því að láta þann pirring bitna á sjúklingi.

Hún sagði að niðurstaða landlæknis hefði verið að ekki var brugðist rétt við í bráðaaðstöðu og að brestir hefðu verið í faglegri hæfni og dómgreind starfsmannsins.

Dagmar sagði að þrátt fyrir að verjandi myndi reyna að slá ryki í augu dómsins vegna starfsaðstæðna breytti það ekki refsiverðri háttsemi Steinu.

Steina, sem stjórnandi vaktar, tók ákvörðun um að gefa sjúklingnum drykkinn sama hvað og tæmt úr tveimur fernum, þrátt fyrir að sjúklingurinn bæði hana um að hætta.

Dagmar nefndi vitnisburð fyrri aðalmeðferðar um að Steina hefði átt það til að sýna vald sitt gagnvart sjúklingum.

Bruninn á Selfossi

Dagmar sagði að ljóst væri að Steina hefði ekki haft sterkan og einbeittan ásetning til manndráps líkt og í Rauðagerðismálinu.

Steina hefði hins vegar haft ásetning til að neyða drykkinn ofan í brotaþola. Sem hjúkrunarfræðimenntaður starfsmaður mátti henni verða ljóst að þetta gæti leitt til dauða sjúklingsins, sem var veikburða fyrir og átti erfitt með að kyngja.

Dagmar sagði það koma til greina að Steina verði sakfelld fyrir bæði stórfellda líkamsárás eða manndráp af gáleysi.

Fyrir hið síðarnefnda gæti átt við þar sem Steina hefði hundsað viðvaranir samstarfskvenna hennar.

Þá nefndi Dagmar sem dómafordæmi dóm Hæstaréttar frá árinu 2020 þar sem maður var dæmd­ur í 14 ára fang­elsi í Hæsta­rétti fyr­ir að hafa valdið elds­voða við Kirkju­veg á Sel­fossi árið 2018 þar sem tvær mann­eskj­ur lét­ust. Í því tilviki komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði haft lægsta stig ásetnings.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Steinu.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Steinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verknaðarlýsing öðruvísi

Vilhjálmur krefst þess að Steina verði sýknuð en til vara að hún verði sakfelld til vægustu refsingar sem lög leyfi og að fangelsisrefsing verði skilorðsbundin að öllu leyti.

Hann sagði ljóst að ákæruvaldið reiði hátt til höggs og geri kröfu um að Steina verði sakfelld fyrir manndráp af ásetningi.

Verjandinn taldi að ekki væri hægt að heimfæra brotið miðað við verknaðarlýsingu í ákæru. Ef um líkamsárás væri að ræða þyrfti að tilgreina nákvæmlega í ákæru hvernig sú árás átti að hafa farið fram.

Þá væri enn síður hægt að heimfæra brotið undir brot gegn 215. gr. Vilhjálmur sagði það gefa augaleið að verknaðarlýsing á gáleysisbroti í ákæru sé gjörólík verknaðarlýsingu á ásetningsbroti.

Nefndi hann sem dómafordæmi sýknudóm héraðsdóms árið 2015 í máli hjúkrunarfræðings sem ákærður var fyrir manndráp af gáleysi.

Framburður annmörkum háður

Vilhjálmur sagði sýknudóm héraðsdóms vera vel rökstuddan þar sem sagði að ásetningur Steinu væri ósannaður.

Framburður Steinu hefði verið skýr, staðfastur og trúverðugur frá upphafi. Ekkert sem kom fram í seinni aðalmeðferð hefði breytt því.

Þá sagði hann að framburður annarra lykilvitna sem voru á vettvangi væri miklum annmörkum háður.

Samstarfskonur Steinu hefðu fundað í þrígang á spítalanum áður en þær gáfu skýrslu hjá lögreglu.

Vilhjálmur tók fram að hann væri ekki að saka vitnin um að bera vísvitandi rangar sakagiftir í þessu máli. Það hafi hins vegar verið staðfest með ótal rannsóknum að þegar fólk talar saman um málsatvik þá hættir það að gera greinarmun á sinni eigin upplifun og upplifun annarra.

Hann sagði afskipti Landspítalans í málinu afar óheppileg.

Reyndi að bjarga lífi brotaþola

Vilhjálmur sagði engin vettlingatök duga í þeim aðstæðum sem Steina var kölluð í umræddan dag.

Það hafi verið hennar mat að sjúklingurinn væri að kafna. Hún hafi því reist hann við, náð grænmetisbita upp úr kokinu og eftir atvikum bjargað lífi brotaþola með því.

Sjúklingurinn hafi verið áfram í andnauð og Steina því gefið honum að drekka. Hún hefði hellt einum næringardrykk í glas og borið að vörum brotaþola. Það hefði borið árangur þar sem brotaþoli kastaði upp sem losaði um öndunarveginn. Þegar sjúklingurinn hætti að kyngja drykknum hætti Steina að gefa honum drykkinn.

Hann sagði það með ólíkindum að ákæra Steinu fyrir manndráp af ásetningi þegar hún reyndi að bjarga lífi sjúklingsins.

Vilhjálmur nefndi að hann hefði það að orði að á Landspítalanum í dag spyrji starfsfólk sjúklinga hvort það megi gefa þeim að drekka.

Getur ekki borið ábyrgð á öllu

Verjandinn sagði að það væri ekki hægt að gera Steinu ábyrga fyrir öllu sem brást þennan dag. Um væri að ræða samverkandi þætti sem leiddu til þessa hörmulega atviks, ekki bara eitthvað eitt.

Vilhjálmur nefndi nokkrum sinnum í málflutningi að til skoðunar hefði verið að ákæra Landspítalann í tengslum við málið.

Hann sagðist efast um að aftur yrði gefin út ákæra þar sem ein manneskja er gerð ábyrg fyrir mistökum allra, „og það er gott”.

Vilhjálmur minntist að lokum á skýrslutöku Steinu fyrir dómi í gær. Hún hefði átt gríðarlega erfitt síðustu þrjú ár.

„Ótrúlega hryggilegt“ að heyra Steinu greina frá líðan sinni, sagði hann og minntist á að hún hefur ítrekað þurft að leggjast inn á geðdeild og glímt við krabbamein.

Oftast samverkandi þættir

Í andsvari sínu sagði Dagmar að oftast væri það þannig að samverkandi þættir spiluðu inn í í manndrápsmálum.

Hún sagði það þekkjast í „einföldustu manndrápsmálum“.

Yfirleitt væri eitthvað búið að byggjast upp en það breytti því ekki að fólk yrði að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert