Bergur er fallinn

„Blóðgan mána bar við tind,“ segir í þýðingu séra Matthíasar …
„Blóðgan mána bar við tind,“ segir í þýðingu séra Matthíasar Jochumssonar á norræna sagnaljóðinu Friðþjófssögu eftir sænska rithöfundinn og prófessorinn Esaias Tegner og kemur ljóðlínan óneitanlega upp í hugann við þessa mynd Kristins Heiðars Fjölnissonar af Bergi heitnum og mánanum. Ljósmynd/Kristinn Heiðar Fjölnisson

„Þetta var nú bara um miðjan dag þrettánda nóvember sem fólk hér á bæjunum tók eftir því að Bergur var horfinn úr fjallinu,“ segir Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit, í samtali við mbl.is um klettadranginn Berg í Breiðabólsstaðarklettum sem um eilífð hefur vakað yfir íbúum og gestum á Hala, fæðingarstað Þórbergs rithöfundar Þórðarsonar.

Bergur féll, að öllum líkindum, í aftakaveðri sem gerði þar eystra aðfaranótt 13. nóvember eftir varðstöðu um þúsundir ára og er sjónarsviptir að, enda veittu íbúar brotthvarfi hans þegar athygli. Þess má geta hér til fróðleiks að Þórbergur Þórðarson lést 12. nóvember 1974 svo nærri lætur að Bergur hafi yfirgefið sviðið hálfri öld á eftir rithöfundinum frá Hala, nánast upp á dag.

Bergur horfir yfir Suðursveit. Hann er nú horfinn á braut …
Bergur horfir yfir Suðursveit. Hann er nú horfinn á braut – nánast upp á dag 50 árum á eftir Þórbergi Þórðarsyni. Ljósmynd/Einar Björn Einarsson

„Hefur bara verið orðinn fótafúinn“

„Hann var búinn að standa þarna í örugglega þúsundir ára og bar alltaf við himin héðan frá bæjunum séð svo það er mikill sjónarsviptir að honum,“ segir Þorbjörg enn fremur og bætir því við að líklegast sé að Bergur hafi hrunið aðfaranótt miðvikudagsins í síðustu viku, þá hafi verið mjög hvasst en raunar hafi verið þoka dagana á undan svo ekki sé hægt að segja með fullri vissu til um tímasetninguna.

„Það var hvasst þessa nótt og sviptivindar, en það hefur nú oft verið áður á Hala, hann hefur bara verið orðinn fótafúinn,“ segir forstöðumaðurinn. Bergur hafi verið herðabreiður en mjókkað niður og staðið á eins konar stalli á fjallinu ofan við Hala. Kveður hún ferðamenn hafa veitt klettinum sérstaka athygli og einir þrír fararstjórar haft orð á brotthvarfi hans þá viku sem liðin er.

Er auðvelt að komast á þennan stað í fjallinu?

„Nei, það er ekki auðvelt,“ svarar staðarhaldarinn. „Bændurnir hér á bæjunum þekkja þó leið þarna upp. Neðan við Berg er svelti sem heitir Magáll, þeir hafa þurft að fara þarna upp til að bjarga fé,“ segir Þorbjörg og sendir blaðamanni til fróðleiks klausu sem hún setti saman um Berg í tengslum við bók Þórbergs, Steinarnir tala, sem kom út árið 1956 og var fyrsta bókin af fjórum í Suðursveitarkróníku rithöfundarins.

„Þeir sem ólust upp á bæjunum hér og með gamla fólkinu voru jú tengdari náttúrunni en við nútímamennirnir. Þeir myndu örugglega segja allt öðruvísi sögur af Bergi,“ segir Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður í lokin – svona til að slá varnagla.

Einstakur teinréttur steinlíkami

Bergur var klettadrangur í Breiðabólsstaðarklettum. Hann blasti við frá Breiðabólsstaðarbæjunum þremur, Gerði, Breiðabólsstað og Hala. Hann var frá bæjunum séð útvörður í austri, bar við himin, frekar grannvaxinn, en alla tíð fastur punktur í tilverunni. Augun staðnæmdust við þennan einstaka teinrétta steinlíkama ef horft var í austurátt. Nú seinni árin hafa þúsundir gesta í Þórbergssetri á Hala heilsað Bergi af virðingu ár hvert, – þarna sem hann stóð alla daga og horfði yfir byggðina eins og óhagganlegur, fjörgamall og eilífur vinur okkar sem vorum hér niðri á jörðinni að amstra í önn daganna.

Þessa mynd tók Páll Jökull Pétursson ljósmyndari af Bergi og …
Þessa mynd tók Páll Jökull Pétursson ljósmyndari af Bergi og veitti hann góðfúslegt leyfi sitt fyrir að myndin yrði send mbl.is til birtingar. Ljósmynd/Páll Jökull

Þórbergur Þórðarson lýsir klettunum fyrir ofan Breiðabólsstaðarbæina á eftirminnilegan hátt í bók sinni, Steinarnir tala. Það er löngu viðurkennt að sú bók flokkast sem eitt af klassískum listaverkum íslenskra fagurbókmennta, einstök í sinni röð, – eins og reyndar mörg fleiri ritverk Þórbergs Þórðarsonar. Allt í náttúrunni er með lífi. Þórbergur talar þó ekki um Berg sérstaklega, – en hann lýsir steinunum og strókunum og strintunum sem lifandi verum. 

Þarna þurfa þær að standa í sömu sporum í þúsund ár, eða kannski milljón ár, – og geta aldrei hreyft sig. Ég kalla þessar verur gjarnan „karlana mína í fjallinu“ og þeirra á meðal var  Bergur æðstur allra. Þeir sáu þegar Paparnir komu til Íslands og Hrollaugur landnámsmaður. – Sumir steinanna gátu þó að lokum „losað sig frá þrælahaldi fjallsins og hlaupið niður hlíðarnar og orðið að frjálsum einstaklingum“. „Að hugsa sér að standa í sömu stellingum í þúsund ár.“ „Hvílík eilífð er líf steinsins!“

„Einhverjir gæla þó við þá von að líkami hans liggi …
„Einhverjir gæla þó við þá von að líkami hans liggi þarna heill og hægt verði að bjarga honum niður til okkar,“ skrifar Þorbjörg Arnórsdóttir meðal annars í nokkrum línum um Berg sem hún sendi mbl.is í kjölfar viðtals. Ljósmynd/Einar Björn Einarsson

En það ótrúlega gerðist aðfaranótt 13. nóvember síðastliðins. Þá hvarf hann Bergur, – hann valt af stalli sínum. – Ekki er vitað fyllilega um örlög hans enn sem komið er. Nú er hann sennilega allur, – mulinn niður í frumeindir sínar og molarnir liggja þá á klettasyllunum neðan við hann. Einhverjir gæla þó við þá von að líkami hans liggi þarna heill og hægt verði að bjarga honum niður til okkar. En eitt er víst að hann verður ekki lengur augnayndi okkar mannanna sem vöfrum um niðri á jörðinni næstu þúsund eða jafnvel milljón ár. Það varð okkar hlutskipti að horfa á eftir honum inn í eilífðina og söknuðurinn er sár. 

„Svona er þá heimurinn laus í sér,“ svo áfram sé  vitnað í Þórberg og lífsspeki hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert