Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir Reykjavíkurborg hafa gert mistök við deiluskipulag og sé þar með ábyrg fyrir skerðingu á rekstri tveggja fyrirtækja á fimm árum.
Kolbrún tók málið fyrir á borgarstjórnarfundi í gær.
Í greinargerð málsins segir að eigandi Loftkastalans hafi keypt af Reykjavíkurborg lóð árið 2018 með húsi og byggingarrétti.
Loftkastalinn er fyrirtæki sem vinnur að leikmunagerð og var tilgangur kaupanna að nota eignina fyrir stóra leikmuni sem smáa.
Húsið sem um ræðir er gamalt sérhæft verksmiðjuhús sem hýsti á sínum tíma vissan hluta starfsemi áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi og birgðaskemmur Áburðarverksmiðjunnar og óbyggða baklóð. Eru hlutar húsnæðisins með mikilli lofthæð sem getur hentað vel til leikmyndagerðar.
Segir í greinargerðinni að ein af forsendum kaupanna var að gólf væntanlegrar viðbyggingar og lóðin væru sem mest á jafnsléttu og gólfin í svipaðri hæð og er í gömlu húsunum og væri það til að auðvelt væri að renna stórum leikmyndum á milli húsa.
Kemur þá fram að Reykjavíkurborg hafi legið ljóst fyrir í hvaða tilgangi fyrirtækið hygðist nota eignina sem sé staðfest með fréttatilkynningu frá borginni fjórum dögum fyrir undirritun samningsins.
Eftir að kaupin voru frágengin var ákveðið að skipta lóðinni í tvennt og eigendum sagt að það myndi ekki hafa áhrif. Síðar kom svo í ljós að hækka átti baklóðina um 60 sentímetra vegna þess að gatan hækkaði meðfram óbyggðu lóðinni.
Kemur fram að það sé ekki samkvæmt sniðmyndum sem gefnar eru upp í skipulagi.
„Lóðarhafi reyndi að fá staðfestar hæðarmælingar í kringum eignir sínar sem dróst. Seint og um síðir, í lok ágúst 2020 bárust upplýsingar um hæðarmælingar og kom þá í ljós að þær voru rangar. Lóðarhafi telur að allt að 54 cm skekkja sé milli uppgefinna hæðarpunkta frá Reykjavíkurborg,“ segir í greinargerðinni.
Kemur þá fram að eigendur hafi ekki getað nýtt byggingarréttinn vegna mistakanna og að Reykjavíkurborg hafi þegar viðurkennt mistökin m.a. í viðaukum við kaupsamning.
„Óbyggð lóð sem liggur upp við núverandi hús er hækkuð um allt að 60 cm sem útilokar að Loftkastalinn geti nýtt eignina í þeim tilgangi sem stóð til. Einnig hindrar þessi mismunur aðkomu að núverandi húsum. Landslag hallar og í raun stendur eignin ofan í holu,“ segir í greinargerðinni.
„Málið hefur verið í hnút í á sjötta ár. Staðfest hefur verið, m.a. af kærunefnd umhverfis- og auðlindamála, en þangað var málinu vísað í þrígang, að þessa skekkju hefði mátt laga strax í upphafi ef hlustað hefði verið á ábendingar frá Loftkastalanum og fleirum,“ segir þar enn fremur.
Þá hafi Reykjavíkurborg þann 8. október lýst yfir riftun kaupsamnings og viðauka við hann og gert það á grunni vanefnda kaupanda á greiðslum.
Því hafa forsvarsmenn Loftkastalans andmælt en meginvanefnd snýr að greiðslum 3 og 4 sem eru vegna byggingarréttar og gatnagerðargjalda og eru háðar því að hægt sé að byggja á lóðinni en, að því er segir í greinargerðinni, er það ekki hægt vegna ofangreinds hæðarmismunar.
„Það skal áréttað að Reykjavíkurborg hefur ekki orðið fyrir tjóni þrátt fyrir að þessar greiðslur hafi dregist því samkvæmt kaupsamningnum þá eiga bæði greiðslur vegna byggingarréttargjalda og gatnagerðargjalda að taka verðbreytingum og eru þar með verðtryggðar. Borgin hefur þar af leiðandi ekki orðið fyrir tjóni þó að byggingarrétturinn hafi ekki enn verið nýttur,“ segir í greinargerðinni.
Í bókun Flokks fólksins með greinargerðinni segir að Reykjavíkurborg hafi brotið á eigendum Loftkastalans og felst brotið í því að borgin útfærði ekki í deiluskipulagi það sem þó bar að gera samkvæmt skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa.
„Þetta er ákveðið og gert án vitundar lóðarhafa. Eigendur kærðu í þrígang til kærunefndar Umhverfis- og auðlindamála en málinu jafnoft vísað frá með þeim rökum að borginni væri í lófa lagið að leiðrétta mistökin og einnig að málið væri einkaréttarlegs eðlis,“ segir í bókuninni.
Segir þar enn fremur að eigendurnir hafi ekki getað nýtt byggingarréttinn og sé Reykjavíkurborg ábyrg fyrir skerðingu á rekstri tveggja fyrirtækja á fimm árum, en einn eiganda Loftkastalans er einnig eigandi fyrirtækisins Rusl í gull sem hefur verið í stoppi frá upphafi málsins.