Borgin verður af milljörðum eftir dóm Hæstaréttar

Ráðhúsis í Reykjavík.
Ráðhúsis í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reykjavíkurborg verður af milljörðum króna í kjölfar dóms Hæstaréttar sem kveðinn var upp í dag, þar sem dómstóllinn sneri við niðurstöðu héraðsdóms.

Um er að ræða langvinnt deilumál á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um úthlutun framlaga úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Héraðsdómur hafði áður dæmt borginni í vil og gert ríkinu að greiða yfir þrjá milljarða en Hæstiréttur hefur nú snúið fyrri dómi við og dæmt ríkinu í vil.

Reykjavík útilokað frá úthlutun

Hefur ágreiningurinn snúist um það hvort fullnægjandi lagastoð hafi verið fyrir því að útiloka Reykjavíkurborg frá úthlutun almenns jöfnunarframlags úr jöfnunarsjóði vegna reksturs grunnskóla og framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál.

Borgin gerði kröfu um að fá greiddan tæplega hálfan sjötta milljarð ásamt vöxtum. Dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur borginni í vil í desember á seinasta ári og var ríkinu gert að greiða Reykjavíkurborg 3,3 milljarða ásamt vöxtum.

Hins vegar samþykkti Hæstiréttur að héraðsdómi yrði áfrýjað beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti þar sem skilyrði voru uppfyllt um að hægt væri að áfrýja beint til réttarins.

Ótvírætt að borgin gæti tekið við rekstri grunnskóla

Hæstiréttur nú sýknað ríkið af kröfum Reykjavíkurborgar og þarf ríkið því ekki að greiða borginni þá milljarða sem héraðsdómur hafði dæmt ríkið til að greiða. Borgin þarf aftur á móti að greiða ríkinu fjórar milljónir króna vegna málskostnaðar. 

Fram kemur að Hæstiréttur hafi leitað til forsendna að baki flutningi grunnskóla frá ríki til sveitafélaga árið 1996, þar sem ótvírætt var að Reykjavík gæti tekið við rekstri grunnskóla fyrir sitt leyti og ætti ekki að njóta framlaga úr jöfnunarsjóði á þeim grunni.

Vegna þeirra hefðu jöfnunarframlög til Reykjavíkurborgar ekki verið reiknuð út og engin stjórnvaldsfyrirmæli sett um að fella þau niður.

„Ekki var því talið að löggjafinn hefði framselt vald til ráðherra til að meta hvort eða á hvaða grunni Reykjavíkurborg ætti rétt á framlögum úr sjóðnum. Ekki var fallist á með Reykjavíkurborg að fyrirmæli reglugerðar um tilgreind framlög úr jöfnunarsjóði hefði skort stoð í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitafélaga í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu á vef Hæstaréttar.

Fjallað var ítarlega um málaferlin í umfjöllunar Morgunblaðsins í síðasta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert