Einar skorar á næstu ríkisstjórn

Einar Þorsteinsson borgarstjóri ræddi við mbl.is í kjölfar dóms Hæstaréttar.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri ræddi við mbl.is í kjölfar dóms Hæstaréttar. mbl.is/Karítas

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að borgaryfirvöld virði niðurstöðu Hæstaréttar. Hann skorar á næstu ríkisstjórn að samþykkja frumvarp um breytingar á lögum um jöfnunarsjóð.

Reykja­vík­ur­borg verður af millj­örðum króna í kjöl­far dóms Hæsta­rétt­ar sem kveðinn var upp í dag, þar sem dóm­stóll­inn sneri við niður­stöðu héraðsdóms sem hafði gert ríkinu að greiða borginni yfir þrjá milljarða króna.

Um er að ræða lang­vinnt deilu­mál á milli Reykja­vík­ur­borg­ar og rík­is­ins um út­hlut­un fram­laga úr jöfn­un­ar­sjóði sveit­ar­fé­laga en Hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfum borgarinnar.

„Við virðum þá niðurstöðu“

Spurður hvort að niðurstaðan séu vonbrigði segir Einar að hann hafi ekki hafið þessa vegferð. Þó hafi verið nauðsynlegt hafi verið að leiða málið til lykta hjá dómstólum.

„Nú erum við með niðurstöðu í því, ríkið er sýknað og við virðum þá niðurstöðu,“ segir hann.

Hef­ur ágrein­ing­ur­inn snú­ist um það hvort full­nægj­andi laga­stoð hafi verið fyr­ir því að úti­loka Reykja­vík­ur­borg frá út­hlut­un al­menns jöfn­un­ar­fram­lags úr jöfn­un­ar­sjóði vegna rekst­urs grunn­skóla og fram­lags vegna nem­enda með ís­lensku sem annað tungu­mál.

Vill að næsta ríkisstjórn samþykki frumvarpið

Einar segir mikla hagsmuni vera undir og hann skorar því á næstu ríkisstjórn að samþykkja frumvarp innviðaráðherra um breytingar á lögum um jöfnunarsjóð.

„Sem kveða einmitt á um það að börn af erlendum uppruna í Reykjavík fái sama framlag og börn af erlendum uppruna fá í öðrum sveitarfélögum. Það má segja að ríkið hafi með ákveðnum hætti viðurkennt rétt þessara barna til að fá framlag eins og erlend börn í öðrum sveitarfélögum með þessu frumvarpi. Það náði því miður ekki fram að ganga en ég skora á næstu ríkisstjórn að ganga í það verk,“ segir Einar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og flokksbróðir Einars, ákvað í janúar á þessu ári að beita sér ekki fyrir frumvarpinu m.a. vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur undir lok síðasta árs, sem eins og fyrr segir var þvert á niðurstöðu Hæstaréttar.

Samfélagið tekið miklum breytingum

Hann segir að frá því að grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna árið 1996 þá hafi samfélagið breyst gífurlega og grunnskólinn líka. Þar vegi kannski þyngst sá fjölbreytti hópur barna sem eru í grunnskóla í Reykjavík.

„Það er eðlilegt að lög og reglur taki mið af þeim breytingum því áskorunin sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag í dag er að tryggja farsæla aðlögun barna inn í íslenskt samfélag og þess vegna er brýnt að tryggja þessi framlög,“ segir hann.

Einar segir að ekki hafi verið gert ráð fyrir tekjum úr þessu máli í neinum fjárhagsáætlunum borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka