Flutningabíll með tengivagn sem var á leið frá Akureyri til Dalvíkur valt á Ólafsfjarðarvegi snemma í morgun. Ökumaður var einn i bílnum og slapp hann ómeiddur.
Börkur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, segir við mbl.is að flutningabíllinn hafi verið með 46 tonn af fiski. Hann segir að tengivagninn hafi runnið til í beygju og hafi tekið bílinn með sér og hann lent á hliðinni utan vegar.
Börkur segir að lögreglan hafi girt svæðið af með borðum og björgunarsveit vinni nú að því að afferma flutningabílinn og hreinsa fiskinn af svæðinu.
„Þetta fór eins vel og hægt er þar sem enginn slasaðist,“ segir Börkur. Hann segir að það sé mikill snjór á Norðurlandi og hálka á vegum. Brýnir hann fyrir ökumönnum að fara gætilega.