„Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir og núna er stýrilækkunarferlið hafið af fullum krafti eins og okkar spálíkan sem við vorum að vinna með samhliða kjarasamningum gerði ráð fyrir.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans að lækka vexti bankans um 0,5 prósentustig.
Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5% og hafa lækkað um 0,75 prósentustig eftir að hafa staðið í staðið í 9,25 prósentum í rúmt ár.
„Það sem er líka gríðarlega jákvætt er að við erum að sjá verðbólguna ganga hratt niður. Þegar við skrifuðum undir samningana var verðbólgan 6,6 prósent en er nú komin niður í 5,1 prósent þannig að upplegg okkar og sú áhætta sem verkalýðshreyfingin tók samhliða stjórnvöldum og sveitarfélögum er að ganga eftir,“ segir Vilhjálmur.
Hann segist hafa gagnrýnt orkufyrirtækin sérstaklega og einstök sveitarfélög fyrir að hafa ekki fylgt línunni alveg en sá árangur sem er að koma í ljós núna muni skila sér í mun betri afkomu sveitarfélaga með lækkun verðbólgu og vaxta, því ávinningur þeirra sé síst minni en heimilanna og fyrirtækjanna þegar vextirnir lækka.
Áttir þú von á þessum tíðindum frá peningastefnunefndinni?
„Já, ég átti von á þessum tíðindum en það sem ég hef verið ósáttastur með miðað við lækkun á verðbólgunni er að Seðlabankinn hefur ekki fylgt því eftir með nægilegum krafti. En nú stígur hann dálítið kröftugt skref,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir mikilvægt að átta sig á því hvað þessi lækkun þýði. Hann segir að heimilin skuldi 3.200 milljarða eða 72 prósent af landsframleiðslu þannig að 0,75 prósentustiga lækkun á stýrivöxtum í síðustu tveimur ákvörðunum Seðlabankans þýði 24 milljarða króna ávinning fyrir íslenskt heimili ef þetta skilar sér á endanum í allar vaxtaberandi skuldir heimilanna.
Þá bendir hann á fyrirtækin í landinu skuldi 3.400 milljarða og að ávinningurinn fyrir þau ef vaxtalækkunin skili sér til þeirra af fullum þunga verði tæpir 26 milljarðar.