Vinna við að bora eftir heitu vatni á Brimnesi á Kjalarnesi og á Geldinganesi hefur skilað árangri því heitt vatn hefur fundist á báðum stöðum og þar með bætast tvö ný lághitasvæði innan höfuðborgarsvæðisins við þau fjögur sem fyrir voru á svæðinu gangi allt að óskum.
„Það voru jákvæðar fréttir sem við fengum í síðustu viku þar sem þetta er í fyrsta skipti í langan tíma þar sem við erum að staðfesta ný lághitasvæðin fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, í samtali við mbl.is.
Á Kjalarnesi hafa fundist 40 lítrar á sekúndu af um 100 gráðu heitu vatni þar sem möguleiki er á að hægt verði að vinna allt að 200 lítra af heitu vatni sem gæti annað 10 þúsund manna hverfi.
Á Brimnesi á Geldingarnesi hafa fundist 20 litrar á sekúndu af 90 gráðu heitu vatni. Frekari rannsóknir og boranir eru fyrirhugaðar þar á næstu mánuðum og árum.
Sólrún segir að lengi hafi verið vitað um möguleika á jarðhita á þessum tveimur svæðum og síðustu árin hafi verið vinna í gangi við að gera rannsóknarboranir. Hún segir enn fremur að það sé alltaf óvissa í jarðhitaleit og það sé ekki nóg að vita um vatn.
„Við vorum með jákvæðar væntingar um Kjalarnesið og það að hafa fundið svona góðar holur þar eru frábær tíðindi. Við byrjuðum að leita þar fyrir tveimur árum. Við vissum að hitinn þar var frekar hár en vissum ekki alveg hvernig landfræðileg dreifing hans var. Það er í raun engin jarðhitavirkni þar í gangi þannig að hitta á réttan stað eru góðu fréttirnar,“ segir hún.
Hvað Geldingarnesið varðar segir Sólrún að lengi hafi verið leit í gangi að hita. Það hafi verið vitað um hita þar og árunum 1999-2000 hafi verið boraðar hitastigsholur.
„Áskorunin þar var vatnið. Þó svo að við vissum að þar væri hiti þá var ekkert vatn að koma í holurnar sem var búið að bora og þar með voru þær ekki nýtanlegar. Það voru því miklar gleðifréttir þegar við náðum holu sem kom upp 90 gráðu heitt vatn í og gæti verið um 20 sekúndulítrar sem gefur okkur vonir um að þar sé mögulega nýtt jarðhitakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið.
Hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fær heitt vatn frá virkjununum á Nesjavöllum og Hellisheiði og frá fjórum lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík og nú lítur út fyrir að fimmta og jafnvel sjötta lághitasvæðið sé að bætast við á Kjalarnesi og Geldinganesi og að hægt verði að nýta vatn þaðan fyrir hitaveituna.
„Við áætlum að þurfa um 120 þúsund sekúndulítra aukningu á hverju ári til að anna vaxandi og stækkandi samfélagi en búandi á eyju sem er eldfjallaeyja er það mjög mikilvægt að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni bæði ef eitthvað gerist eitthvað í náttúrunni og ekki síður ef það verða alvarleg rekstraratvik,“ segir hún.
Sólrún segir að sextíu prósent af okkar varma komi núna úr virkjunarsvæðunum á Henglinum og ef það yrði eitthvað alvarlegt rekstrarfrávik í annarri hvorri virkjuninni þá sé mjög gott að vera með fleiri svæði til taks.
Hún segir að nýting jarðvarmans eins nálægt eftirspurninni sé ódýrasti kosturinn og lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu séu það.