Horfa út fyrir Reykjavík vegna bílstæðaskorts

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks sem er með íbúðir í sölu …
Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks sem er með íbúðir í sölu í Gróttubyggð. Samsett mynd

Gylfi Gíslason, framkvæmdastóri Jáverks, telur það ekki nokkrum vafa undirorpið að spurn eftir íbúðum þar sem bílastæði fylgir sé meiri en eftir íbúðum þar sem ekkert bílastæði fylgir, eða þau til sölu eða leigu.

Jáverk er með íbúðir í Gróttubyggð til sölu og þar hafa 33 íbúðir af 63 selst. Hann segir söluna með ágætum miðað við árferði. Næg bílastæði fylgja íbúðunum að sögn hans.

Bæði eru blokkaríbúðir og íbúðir í fjórbýlum í sölu. Í fjórbýlishúsunum eru tólf íbúðir og eru átta þeirra seldar.

Til samanburðar hefur verið tregða á sölu á íbúðum í Reykjavík þar sem skortur á bílastæðum er sagður fæla kaupendur frá.

Kvaðir eru sölunni til trafala

„Við finnum fyrir aukinni eftirspurn á þeim stöðum þar sem bílastæði fylgja, ólíkt því sem er í Reykjavík,“ segir Gylfi en svo virðist sem sala þar gangi hægar vegna kvaða sem Reykjavík setti á byggingu íbúðanna.

Vísar hann þar til reglugerðar sem kveður á um að hámarki megi vera 0,7 bílastæði á hverja íbúð í nýbyggingum í Reykjavík.

Hann segir sölu á íbúðum í Gróttuhverfi eftir væntingum og að taka verði með í reikninginn að tveir þriðju hluti íbúðanna verði ekki tilbúnar til afhendingar fyrr en í apríl.

„Ég er ekki að miða þetta við það þegar við seldum heilu fjölbýlin á einum degi, en þetta er fínasta sala,“ segir Gylfi.

Símtölum fjölgaði þegar eignir í Reykjavík fóru í sölu

Jáverk er einnig í stóru uppbyggingarverkefni í Traðarreit í Kópavogi. Þar fylgja næg bílastæði.

Að sögn hans fjölgaði símtölum til fyrirtækisins til muna þar sem spurt var um íbúðir þar eftir að stór verkefni á þéttingarreitum í Reykjavík fóru í sölu.

„Ég er ekki byrjaður að selja þessar eignir þannig að ég get ekkert fullyrt um að þetta muni breyta öllu. En mér sýnist á öllu að þessar kvaðir í Reykjavík hafi áhrif. Ég finn alveg eftirspurnina sem er í Gróttuhverfi og líka í Kópavogi. Þetta er frá fólki sem er að skoða nýjar eignir,“ segir Gylfi.

Bílarnir verði einhvers staðar að vera

Nokkrar þakíbúðir í Traðarhverfi fara í sölu fyrir jólin en flestar koma þær á markað í febrúar.

Sjálfur segist hann afar hlynntur öðrum ferðamátum en með einkabílnum.

„Þó að vonandi verði einkabíllinn minna notaður, þá held ég að fólk vilji eiga bíla áfram og þeir verða einhvers staðar að vera,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert