Sparnaður heimila vex meira en áður var talið

Hægt hefur á vexti einkaneyslu.
Hægt hefur á vexti einkaneyslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sparnaður heimila er að vaxa miklu meira en áður var talið og hægt hefur töluvert á vexti einkaneyslu.

Þetta kom fram í máli Þórarins G. Péturssonar, fram­kvæmda­stjóra sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu í Seðlabank­an­um, er hann gerði grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar um að lækka stýrivexti í morgun um 0,5 prósentustig, eða úr 9% í 8,5%.

„Við sjáum það í kortatölum þar sem hægt hefur á kortaveltu. Við sjáum það að heimilin eru svartsýnni en þau voru áður. Þá er líka að hægja á vexti ráðstöfunartekna,“ sagði Þórarinn.

Endurskoðun á lánakjörum heldur aftur af einkaneyslu

Þá hefur orðið veruleg endurskoðun á kaupmætti ráðstöfunartekna hjá Hagstofunni sem veldur því að tekjur heimilanna eru að vaxa miklu meira á undanförnum árum heldur en áður var áætlað.

„Þegar að það er svona lítill vöxtur á einkaneyslu og útgjöldum en mikill vöxtur á tekjum þá þýðir það að sparnaður heimila er að vaxa miklu meira en áður var talið. Þetta sparnaðarstig þýðir það að heimilin hafa úr meiru að moða fram á við. Þá bætist líka við að auður heimilanna er að vaxa hraðar, hann er núna kominn í sögulegar hæðir og er að vaxa hraðar en áður var talið. Þannig að bæði rekstrarreikningur og efnahagsreikningur heimilanna er sterkari en hann var áður og það gefur þá tilefni til að ætla að einkaneysla muni vaxa hraðar en áður var talið,“ sagði Þórarinn.

Hann tók fram að á móti þessum hraða vexti tekna væri auðvitað sú staðreynd að heimilin stæðu mörg hver frammi fyrir endurskoðun á lánakjörum, sem sums staðar væri hafin.

„Það mun að einhverju leyti halda aftur af vexti einkaneyslu og er örugglega ein af ástæðunum fyrir því að heimilin hafa verið að byggja upp einhvern sparnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka