Stjórnarmenn geta talist „launþegar“

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands.

Í dómi EFTA-dómstólsins sem féll í dag kemur fram að ekki sé hægt að útiloka að stjórnarmenn í fyrirtæki geti talist „launþegar“. Dómurinn varðar mál Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og starfsmanns sem var sagt upp.

Margrét Rósa Kristjánsdóttir stefndi SÍ eftir að henni var sagt upp störfum og bar hún það fyrir sig að um hópuppsögn væri að ræða, en samkvæmt Evróputilskipun um hópuppsagnir þá þarf að fara eftir ákveðnum meðferðarreglum um hópuppsagnir sem hún segir SÍ ekki hafa fylgt og því sé SÍ skaðabótaskylt.

SÍ sagði að ekki væri um hópuppsögn að ræða þar sem þá þurfi að segja upp að lágmarki 10% af launþegum samkvæmt innleiðingu Evróputilskipunar.

Sögðu upp 14 starfsmönnum

SÍ sagði upp 14 starfsmönnum, sem er innan við 10% af starfsmönnum SÍ ef stjórn SÍ er talin með sem „launþegar“. Fimm launaðir stjórnarmenn í SÍ, skipaðir af ráðherra, voru sem sagt taldir með sem starfsmenn í þessum skilningi og heildartala starfsmanna því orðin 143 í stað 138.

Málið snýst því í raun um það hver túlkunin á orðinu „launþegi“ er og hvort að stjórnarmenn teljist launþegar.

Ef stjórnarmenn eru taldir með sem launþegar þá sagði SÍ upp innan við 10% af starfsmönnum. Ef stjórnarmenn eru ekki taldir með þá sagði SÍ upp meira en 10% af starfsmönnum og þar með er um hópuppsögn að ræða og Margrét gæti mögulega sótt skaðabætur.

Stjórnarmenn geta talist launþegar

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, í ráðgefandi áliti til Héraðsdóms Reykjavíkur, að stjórnarmenn geti talist „launþegar“ í skilningi tilskipunarinnar, ef þeir, yfir tiltekið tímabil, veita lögaðila þjónustu þar sem þeir lúta boðvaldi annarra, og fá greidda þóknun fyrir.

„Jafnframt skal það metið í hverju máli fyrir sig hvort slíkt boðvald sé fyrir hendi út frá öllum þeim þáttum og aðstæðum sem einkenna samband aðila, sem og markmiðum tilskipunarinnar,“ segir í tilkynningu frá EFTA-dómstólnum.

Héraðsdómur mun svo væntanlega úrskurða um það hvort að stjórnarmenn SÍ, sem skipaðir eru af ráðherra, lúti boðvaldi.

Um er að ræða ráðgefandi álit dómstólsins sem dómarar Héraðsdóms Reykjavíkur óskuðu eftir vegna máls Margrétar og SÍ. 

Vert er að taka fram að um skipulagsbreytingar var að ræða og öllum sem var sagt upp fengu boð um annað starf innan SÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert