Tekist á um áður óþekkta skýrslu landlæknis

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi ákærðu, í dómsal í gærmorgun.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi ákærðu, í dómsal í gærmorgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi Steinu Árnadóttir, krafðist þess að skýrsla embættis landlæknis um hvað fór úrskeiðis þann 16. ágúst árið 2021 á geðdeild 33A á Land­spít­al­an­um við Hring­braut yrði lögð fram í aðalmeðferð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Steinu.

Aðalmeðferð í máli hjúkrunarfræðingsins hófst í gær eft­ir að sýknu­dóm­ur Héraðsdóms Reykja­vík­ur var ómerkt­ur af Lands­rétti í apríl á þessu ári. Steina er ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi.

Lagt er fyr­ir héraðsdóm að taka málið til meðferðar á ný og fella síðan á það efn­is­dóm. Héraðsdómi er meðal ann­ars gert að meta hvort Steina hafi gerst sek um mann­dráp af gá­leysi.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum kom fram fyrir dómi í dag sem vitni og minntist á fyrrnefnda skýrslu sem er dagsett 19. janúar 2023.

Hún kom ekki að gerð skýrslunnar svo dómarar bentu á að vitnið gæti ekki svarað fyrir innihald hennar. Vitnið upplýsti þó um dagsetningu hennar.

„Mjög mikilvægt sönnunargagn“

Vilhjálmur gerði kröfu um að skýrslan, sem er úttekt á því hvað fór úrskeiðis á geðdeildinni í tengslum við atvikið, yrði lögð fram fyrir dóminn. Hann sagðist ekki hafa vitað af tilvist hennar fyrr en nú.

Verjandinn sagðist telja að um „mjög mikilvægt sönnunargagn“ væri að ræða.

Dómari sagðist muna hugleiða kröfu hans.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari benti þá á að ákæruvaldið hefði áður beðið embættið um fundargerðir og vitnisburði sem tengdust Steinu, en þeirri beiðni var hafnað.

Lögmaður bótakrefjanda og Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari.
Lögmaður bótakrefjanda og Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur sagði þá að í þessu tilviki væri um að ræða gagn sem væri annars eðlis, þ.e.a.s. opinbert gagn um hvað fór úrskeiðis.

Nefnt var að í málinu lægi fyrir rótargreining Landspítala um hvað fór úrskeiðis og benti Vilhjálmur á að hann hefði aflað þess gagns.

Gagnið gæti verið upplýsandi

Eftir hlé sagðist dómari að það gæti „vel verið“ að gagnið væri upplýsandi fyrir dóminn og að það hefði mátt óska eftir skýrslunni fyrr.

Dagmar var spurð hvort hún teldi að hún gæti óskað eftir skýrslunni hjá embættinu.

Hún sagðist ekki hafa reynt það og gæti ekki almennilega svarað hvort það væri hægt. Hún ítrekaði að fyrri beiðni um afhendingu gagna hefði verið hafnað með úrskurði. Því var ekki farið lengra í að sækjast eftir gögnum landlæknis.

Dagmar sagði að rótargreiningin lægi fyrir og að lögregla færi með rannsókn sakamálsins. Hún nefndi þó að vissulega gæti skjalið verið upplýsandi.

Dómari sagði þá að skjalið skyldi ekki tefja aðalmeðferðina, jafnvel þó það gæti verið upplýsandi, og hafnaði því beiðni Vilhjálms.

Því mótmælti hann harðlega.

Vilhjálmur var ekki sáttur við ákvörðun dómara.
Vilhjálmur var ekki sáttur við ákvörðun dómara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FÍH vissi ekki um skjalið

Vilhjálmur sagði að bæði sækjandi og dómari hefðu nú þegar lagt dóm á skjalið, þ.e. að það gæti verið upplýsandi fyrir málið. Það væri kjarni málsins.

„Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu að þetta skjal væri til,” sagði hann og bætti við að hvergi hefði verið upplýst að það væri til. 

Hann hefði spurt Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvort það hefði verið upplýst um tilvist skýrslunnar og sagði að svo hefði ekki verið.

Vilhjálmur gerði því aftur kröfu um að skýrslunnar væri aflað og málinu frestað.

Hann nefndi að ef skjalið hefði komið upp eftir dómtöku þá hefði hann gert kröfu um endurupptöku.

„Auðvitað er mjög sérstakt að þetta komi fram á þessum tímapunkti,” sagði dómari þá og lagði það í hendur Dagmarar að afla upplýsinga hjá landlækni hvort að hægt væri að fá skjalið.

Samhljóma niðurstöður

Yfirlæknir á Landspítalanum, sem kom að vinnu áðurnefndrar rótargreiningar, bar því næst vitni.

Vitnið fór yfir helstu niðurstöður úttektarinnar sem voru meðal annars að ekki hefði verið brugðist rétt við í bráðaaðstæðum, starfsmenn hefðu ekki fengið þjálfun í skyndihjálp, sjúklingurinn hefði ekki fengið rétt fæði og ekki verið á réttu þjónustustigi miðað við veikindi. Auk þess hefði deildin verið undirmönnuð og Steina verið á vakt með reynslulitlum starfsmönnum.

Spurð af Vilhjálmi hvort hún kannaðist við skýrslu landlæknis svaraði vitnið játandi. Hún sagði að Landspítalanum hafi borist skýrslan 20. janúar.

Yfirlæknirinn sagði niðurstöður skýrslu landlæknis nokkuð samhljóma niðurstöðu rótargreiningarinnar.

Hún sagði að það hefði ekki hvarflað að þeim að upplýsa ákærðu um skýrsluna.

Eftir þessa síðustu vitnaskýrslu málsins sagði dómari að ákvörðun hennar um að hafna beiðni verjandans stæði.

Vilhjálmur sagði „kolrangt“ að gera það. Var þá gert hádegishlé og Dagmar leitaði upplýsinga hjá landlækni.

Lögfræðingur í hádegismat

Dagmar fékk þá þær upplýsingar hjá sviðstjóra landlæknis að haft yrði samband við lögmann embættisins. Hann var hins vegar í hádegismat og kæmi svar innan hálftíma.

Vilhjálmur lagði til að málflutningi, sem er næstur á dagskrá, yrði frestað til morguns.

Áður en aðalmeðferð hófst var gert ráð fyrir þremur dögum og að hún myndi því klárast á morgun, en er í ljós kom að kalla þyrfti ekki til öll vitni var ákveðið að dómþing myndi klárast í dag.

Upplýsti því dómara að morgundagurinn væri ekki lengur í boði.

Upp hófst þá orðaskak á milli Vilhjálms og dómara um pattstöðuna sem var komin upp.

Vilhjálmur gagnrýndi málsmeðferð dómara í manndrápsmáli þar sem farið er fram á allt að 16 ára fangelsi.

Hann ítrekaði kröfuna um að gagnið yrði lagt fram og ítrekaði dómari að þeirri kröfu væri hafnað.

Var þá beðið eftir svari frá lögfræðingi landlæknis.

Þrjár blaðsíður

Það kom loks og fékk Dagmar skýrsluna senda.

Skjalið er tæpar þrjár blaðsíður. Var það prentað út og dómurum, sækjanda og verjanda gert kleift að kynna sér efni þess á fimmtán mínútum.

Úr varð að skýrslan er hluti af málsgögnum og málflutningur gat loks hafist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka