„Það er ekki verið að huga að hag neytenda“

Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Karítas

„Þetta er bara komið í andlitið á Alþingi og það er mjög alvarlegt mál að þetta skuli gerast með þessum hætti,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um að afgreiðsla búvörulaga í vor hafi stangast á við stjórnarskrá.

Greint var frá í fyrradag að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði komist að þeirri niðurstöðu að lagasetning Alþingis þegar ný búvörulög voru samþykkt í mars á þessu ári, þar sem kjötafurðastöðvum var meðal annars veitt undanþága frá samkeppnislögum, væri í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.

Felldi Héraðsdómur úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem eftirlitið synjaði kröfu innflutningsfyrirtækisins Innness um íhlutun vegna breytinganna.

Allt sé að raungerast sem sambandið hafi bent á

Í samtali við mbl.is segir Finnbjörn að nú sé að raungerast það sem Alþýðusambandið hafi bent á þegar búvörulögin voru sett í vor, að samþykkt hafi verið allt önnur lög en lagt hafi verið af stað með upphaflega.

„Ég held að fólk þurfi að setjast niður og velta fyrir sér hvernig svona hlutir geta gerst,“ segir forsetinn. 

Bentu á að verið væri að skipta um lög

Hann segir sambandið hafa verið mjög á móti breytingunum á sínum tíma og að það hafi komið fram með harða ályktun.

„Það hefur allt raungerst sem við vorum að benda á hvað það varðar. Bæði þessi samþjöppun, hún hefur ekki verið neytendum til hagsbóta. Hún hefur ekki gert það fram að þessu, þó svo að það sé ekki verið að dæma um þá hluti. Það er náttúrulega verið að dæma um framkvæmdina á því hvernig lögin voru samþykkt,“ segir Finnbjörn og heldur áfram.

Við bentum líka á það að þarna væri verið að skipta um lög á milli annarrar og þriðju umræðu.“

Sjá ekkert annað en hækkanir

Eftir lagasetninguna á Alþingi í vor hefur verið greint frá kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska hf. og hefur nýlega verið greint frá mögulegum kaupum félagsins á B. Jensen, sem rekur sláturhús og kjötvinnslu.

Aðspurður um þau áhrif sem sést hafa á markaðnum í kjölfar lagasetningarinnar segir Finnbjörn:

„Ef einhver getur bent á að neytendur hafi hagnast með einhverjum hætti á því, hvort að kjötvörur hafi lækkað einhvers staðar, þá væri mjög gott að fá það. Við sjáum ekkert annað en hækkanir út úr þessu þannig það er ekki verið að huga að hag neytenda í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert