Samgönguverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason segir að tafir á höfuðborgarsvæðinu í umferðinni séu ekki minni en í sambærilegum borgum ef litið er á árlegt tímatap á álagstíma og svokallaðan tafastuðul.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu en mbl.is birti frétt í síðustu viku undir fyrirsögninni „Minni tafir en í sambærilegum borgum“.
Sú frétt var byggð á greiningum sem Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, vann út frá fljótandi ökutækjagögnum (TomTom) sem sýna meðalferðatíma og meðalhraða á og utan háannatíma. Bar hún höfuðborgarsvæðið saman við Bergen, Árósar og Malmö.
Þórarinn segir aftur á móti að meðalökuhraði sé ekki góður mælikvarði til að meta umferðartafir því að samkvæmt þeim mælikvarða þá sé til dæmis „umferðartafaborgin“ Los Angeles með minni umferðartafir en Reykjavík.
Hann segir að á TomTom-listanum sé að finna tvo aðra mælikvarða sem betra sé að nota. Svokallaðan „Tafastuðul“, sem segir til um hve miklu lengri tíma (%) bílferðir taka saman borið við ferðatíma þegar engar eru umferðartafirnar, og „árlegt tímatap á álagstíma.“
Ef tafastuðullinn er skoðaður þá eru umferðartafir áfram mestar á Árósarsvæðinu, höfuðborgarsvæðið kemur þar á eftir, svo Malmö og svo Bergen.
Ef skoðað er árlegt tímatap á álagstíma þá kemur fram að umferðartafir eru mestar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ökumenn tapa á hverju ári að meðaltali 44 klukkutímum á álagstíma, af fyrrnefndum borgum.
Árlegt tímatap er 40 klukkutímar á Árósasvæðinu, 29 klukkutímar í Bergen og 26 klukkutímar í Malmö.
Greinin í heild sinni:
Á mbl.is 14. nóvember síðastliðinn birtist frétt með fyrirsögninni „Minni tafir en í sambærilegum borgum“. Fjallað var um erindi sem dr. Berglind Hallgrímsdóttir samgönguverkfræðingur flutti á morgunfundi sama dag hjá Vegagerðinni. Berglind bar umferðartafir í Rekjavík saman við umferðartafir í Bergen, Málmey og Árósum, sem hún telur vera sambærilegar borgir. Ég er ósammála því, einkum af tveim ástæðum.
Í fyrsta lagi þarf að bera saman borgarsvæðin (ekki bara borgina sjálfa). Á Bergensvæðinu búa 420 þúsund manns, 700 þúsund á Málmeyjarsvæðinu og 367 þúsund á Árósasvæðinu. Skandinavísku borgarsvæðin eru því mun fjölmennari en höfuðborgarsvæðið með sína 244 þúsund íbúa.
Í öðru lagi er höfuðborgarsvæðið bílaborg. Umferðartafir í bílaborgum eru að jafnaði mun minni en í öðrum borgum (heimild: Traffic Index, Selected Metropolitan Areas | The Geography of Transport Systems)
Berglind notaði „TomTom Traffic Index“ til að fá mat á umferðartöfum, Traffic Index ranking | TomTom Traffic Index . Matið er byggt á upplýsingum úr fjölda leiðsögutækja á vegum TomTom. Í upphafi hvers árs er birt mat TomTom á umferðartöfum tæplega 400 borga og er Reykjavík þar á meðal. Gildin sem Berglind notaði eru mat á umferðartöfum í miðborg viðkomandi borgar.
Til þess að fá mat á umferðartöfum borgarsvæða þarf að smella á hnappinn „Metro area“ efst á TomTom-listanum. Þá verður niðurstaðan sú að umferðarástandið er verst í Árósum, en best á höfuðborgarsvæðinu. Á Árósasvæðinu tekur að meðaltali 15 mínútur að aka 10 km og meðalökuhraði á álagstíma er 35 km/klst. Á höfuðborgarsvæðinu tekur að meðaltali 12 mínútur og 40 sekúndur að aka 10 km og meðalökuhraði á álagstíma er 38 km/klst.
Eins og flestum er kunnugt er Los Angeles þekkt fyrir miklar umferðartafir. Þar eru víða langar biðraðir á álagstíma. Ef við notum meðalökuhraða sem mælikvarða á umferðartafir, þá eru umferðartafir á LA-svæðinu minni en á höfuðborgarsvæðinu!
Þar tekur að meðaltali 12 mínútur og 10 sekúndur að aka 10 kílómetra og meðalökuhraði á álagstíma er 39 km/klst. Skýringin er einfaldlega sú að þrátt fyrir langar biðraðir á álagstíma er meðalökuhraði á LA-svæðinu tiltölulega hár vegna þess að þar aka menn gjarnan á 120-130 km/klst. hraða á hraðbrautunum í frjálsu umferðarflæði.
Á TomTom-listanum eru einnig tilgreindir eftirfarandi mælikvarðar á umferðartafir:
a) Tafastuðull (e. congestion level %)
b) Árlegt tímatap á álagstíma (e. time lost per year at rush hours)
Ég tel að mun betra sé að nota þessa mælikvarða en meðalökuhraða. Tafastuðull borgarsvæðis segir til um hve miklu lengri tíma (%) bílferðir taka saman borið við ferðatíma, þegar engar eru umferðartafirnar, samanber heimildina Traffic Index, Selected Metropolitan Areas | The Geography of Transport Systems.
Tafastuðull er síbreytilegur yfir daginn. Uppgefinn tafastuðull hjá TomTom er dagsmeðaltal. Til skamms tíma var borgunum á TomTom-listanum raðað eftir tafastuðlinum.
Fyrirtækið Inrix, sem einnig metur umferðartafir, notar einkum árlegt tímatap á álagstíma sem mælikvarða á umferðartafir.
Við skulum nú skoða hvernig röð borgarsvæðanna breytist ef þessir mælikvarðar eru notaðir. Smellum fyrst á „Metro area“ til að fá allt borgarsvæðið. Síðan smellum við á „Congestion level %“ sem er efst í viðkomandi dálki. Þá verður niðurstaðan sú að umferðartafir eru áfram mestar á Árósasvæðinu þar sem tafastuðullinn er 23%. Hins vegar er tafastuðullinn á höfuðborgarsvæðinu 19%, en aðeins 16% á Málmeyjarsvæðinu og 13% á Bergensvæðinu.
Skoðum nú niðurstöðurnar miðað við árlegt tímatap á álagstíma. Smellum á „Time lost per year at rush hours“ á TomTom-listanum. Göngum úr skugga um að stillt sé á á „Metro area“. Þá verður niðurstaðan sú að umferðartafir eru mestar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ökumenn tapa á hverju ári að meðaltali 44 klst. á álagstíma. Árlegt tímatap er 40 klst. á Árósasvæðinu, 29 klst. á Bergensvæðinu og 26 klst. á Málmeyjarsvæðinu.
Miðað við þennan mælikvarða trónir höfuðborgarsvæðið á toppnum í samanburðinum og er nr. 143 á TomTom-listanum. Það er mjög óeðlilegt að litla bílaborgin okkar sé á þessum stað. Til fróðleiks er Los Angeles-svæðið nr. 105 á listanum með árlegt tímatap upp á 50 klukkustundir.